Hödd Vilhjálmsdóttir, almannatengill og lögfræðingur, er í forsíðuviðtali nýjasta
tölublaðs Vikunnar . Í viðtalinu segir hún meðal annars frá andlegu og líkamlegu ofbeldi
sem hún varð fyrir af hálfu fyrrverandi eiginmanns síns.
„Þegar ég var niðurdregin og þurfti á honum að halda var ég of mikið vesen fyrir hann og
hann lét mig sko finna fyrir því. Þegar ég átti að upplifa gleðilega áfanga fannst honum ég
vera að taka athyglina frá honum og hann eyðilagði allar slíkar stundir. Hann hætti með mér
daginn eftir að pabbi dó, hann ætlaði að skilja við mig kvöldið sem ég missti vinnuna, hann
skildi mig eftir í sundi, þá var ég komin átta mánuði á leið með yngri dóttur mína, því ég var
sár yfir því að hann hafði ekki komið heim af djamminu fyrr en undir morgun og ég vogaði
mér að minnast á það. Hann trylltist og talaði svo ekki við mig í marga daga á eftir. Hann
niðurlægði mig fyrir framan vinkonur mínar og vini, samstarfsfólk sitt og í rauninni bara alla.
Svo laug hann því út um allan bæ að ég væri skapofsakona sem talaði ógeðslega til hans.“
Ofbeldið var ekki bara andlegt að sögn Haddar því það kom fyrir að hann beitti hana
líkamlegu ofbeldi. „Það voru nokkur skipti og í tveimur þeirra sá verulega á mér svo ég gat
ekki falið þá áverka fyrir einstaklingum sem stóðu mér næst á þessum tíma.“
Hödd nefnir eiginmanninn fyrrverandi ekki á nafn í viðtalinu. En í gærkvöldi birtist frétt á
DV þar sem fram kemur að samkvæmt heimildum DV barst ritstjórn Vikunnar í gær bréf frá
lögmanni mannsins, Gunnari Inga Jóhannssyni hjá MAGNA lögmönnum, þar sem hótað var
lögsókn ef viðtalið yrði birt. Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri Vikunnar, staðfestir móttöku
bréfsins í viðtali við RÚV.
Ragnar Gunnarsson, barnsfaðir Haddar og fyrrum eiginmaður, nafngreindi sig sjálfur í færslu
sem hann skrifaði á Facebook í morgun. Þar segir hann:
„Mér þykir ákaflega sárt að lesa lýsingar barnsmóður minnar í viðtali við Vikuna en ég tel
ekki rétt að úttala mig um mína hlið í fjölmiðlum. Deilur okkar, sem varða forræði, eru í sínu
rétta ferli. Ég mun stíga til hliðar úr starfi mínu sem framkvæmdastjóri hjá Brandenburg. Ég
tel mér ekki fært að sinna því starfi fyllilega á sama tíma og ég tekst á við þetta mál með
hagsmuni dóttur okkar að leiðarljósi.“
Helstu vefmiðlar landsins hafa síðan birt frétt um færslu Ragnars, sem er einn fjögurra
eigenda auglýsingastofunnar Brandenburg og var jafnframt framkvæmdastjóri, en hefur nú
vikið til hliðar úr því starfi.
Í viðtalinu segir Hödd einnig frá rótleysi í æsku hennar, námi, starfi, sjálfsvinnu og fleira.
Viðtalið við Hödd má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar