Huldufólk í sirkús og sýndarveruleika

Leikhópurinn Huldufugl hefur undanfarin 2 ár unnið að sviðsverki í samstarfi við breska sirkúshópinn Hikapee um huldufólkið. Kófið setti þó strik í reikninginn og lokaæfingar frestuðust fram á næsta ár. Hóparnir tveir dóu þó ekki ráðalausir heldur ákváðu að búa til stuttmynd í millitíðinni. Stuttmyndin hefur þá sérstöðu að hún er sýnd innan sýndarveruleika og notast við hreyfingar loftfimleikara sem eru teknar upp með notkun hreyfiskynjunarbúninga, og er það hugsanlega í fyrsta skipti sem slíkt er gert í heiminum.
Tökur á hreyfingum loftfimleikara fóru fram í síðustu viku í Englandi með tækniaðstoð frá breska tæknifyrirtækinu Target 3D, en meðlimir Huldufugls, Owen Hindley og Nanna Gunnars fylgdust með æfingum og upptökum gegnum fjarfundakerfi á netinu.
„Við erum virkilega ánægð að hafa náð að vinna þetta alþjóðlega samstarf við núverandi aðstæður og tekið upp ótrúlegt sirkús myndefni til að gera þessa sögu. Núna hlökkum við til að setja þetta allt saman innan sýndarveruleika og glæða söguna lífi með öllum karakterunum, tónlist, hljóðum og landslagi – sem verður impressjónísk útgáfa af íslenskri náttúru,“ segir Owen, sem er leikstjóri stuttmyndarinnar. Owen sér um að hanna umhverfið og karakterana innan sýndarveruleikans, og tekur sú vinna nú við og mun standa yfir næstu mánuði.
„Við erum að vonast eftir að ná að klára að setja stuttmyndina saman fyrir lok árs, en í janúar hefjast lokaæfingar við sviðsverkið“ segir Nanna Gunnars sem sér um framleiðslu myndarinnar. „Við vildum ekki missa niður dampinn við vinnuna á sviðsverkinu og fengum þá hugmynd að gera sýndarveruleika stuttmynd í bland við sirkúsinn, sem er gríðarlega spennandi verkefni. Við vorum svo heppin að fá styrk frá England Arts Council til að framkvæma þetta og gátum látið hugmyndina verða að veruleika,“ bætir hún við.
Huldufugl sérhæfir sig í leikhúsgerð sem notast við tækninýjungar og hafa áður unnið verkið Kassinn innan sýndarveruleika. Kassinn er aftur á móti leikhúsverk með leikara sem á í samskiptum við einn áhorfanda í einu í rauntíma en ekki fyrirfram upptekið efni eins og vænta má í stuttmyndinni. Kassinn hlaut fjölda verðlauna á erlendri grundu og var m.a. tilnefnt til Sprota ársins á síðustu Grímuverðlaunum.
„Við erum líka að vinna að því að klára verk sem er í sama dúr og Kassinn, en fyrir 5 áhorfendur í einu, svo það er í nógu að snúast á næstunni. Það er um að gera að vera með alla anga úti í þessu leiklistar harðæri sem kófið er, og við erum heppin að geta unnið að báðum þessum verkum núna þar sem mestöll vinnan fer fram bakvið tölvuskjá,“ bætir Nanna við að lokum.
Auglýsing

læk

Instagram