Íris segir engin fjöll vera óyfirstíganleg: „Mér líður blessunarlega mjög vel á sviði“

Ef telja ætti upp allt það sem Íris Sveinsdóttir hefur tekið sér fyrir hendur um ævina er hætta á að blaðið entist ekki til. Hún er söngkona, hárgreiðslukona, förðunarfræðingur, leiðsögumaður, fararstjóri, gestgjafi, bókarhöfundur og er enn að bæta við sig. Það er alltaf gaman hjá Írisi, sama í hvaða hlutverki hún er og lífsorkan beinlínis skín af henni.

Nýlega laukst þú áttunda stigi í söng og planið er að halda áfram í söngkennaranám. Kom ekki til greina að láta bara staðar numið? „Mig langar svo að læra þetta,“ segir Íris. „Ég finn að mig langar að miðla til nemenda því sem ég hef lært. Annars byrjaði söngurinn eiginlega sem hálfgert bull. Ég hef alltaf verið með margt fólki í vinnu og þess vegna alltaf þurft að hugsa um aðra. Eins fleiri konur sem komnar eru vel yfir fertugt var ég farin að hugsa; ahh, þú þarft að gera eitthvað fyrir sjálfa þig. Fyrst velti ég fyrir mér hvort ég ætti að skella mér í ræktina og taka vel á en það er ekki einhvern veginn mín deild. Ég hafði verið í kór hjá Hrönn Helgadóttur um árabil en þegar ég flutti til landsins frá Þýskalandi árið 2007 með síðari manninum mínum, Jóni Guðmundssyni, fengu tengdamamma og pabbi okkur með sér í sinn kór, Breiðfirðingakórinn. Hann er átthagakór og mjög notalegur.

Það var svo rétt fyrir jólin þetta árið að tengdamamma fer til Hrannar og stingur því að henni að láta mig syngja einsöng á jólunum. Ég hafði setið við hliðina á tengdamömmu og hún heyrt rödd mína og henni fannst að þessi stelpa ætti að syngja einsöng. Ég á tengdamömmu því mikið að þakka því ef hún hefði ekki tekið þetta skref hefði kannski orðið neitt úr neinu en þegar Hrönn kom og bað mig syngja sagði ég bara: „Já, já,“ Ég er svo hvatvís. Mánuði seinna stend ég í troðfullri Fella- og Hólakirkju, hvert sæti var setið og ég syng þarna lítið lag, Nú ljóma aftur ljósin skær. Ég veit að ég gerði þetta ágætlega miðað við að ég var ekki búin að læra neitt að syngja en mér leið eins og ég væri nakin frammi fyrir öllu þessu fólki. Þegar maður syngur gefur maður svo mikið af sér, maður berskjaldar sig svolítið. Ég hugsaði eftir á, þarna er eitthvað sem ég er til í skoða.“

Þetta er brot úr lengra viðtali sem finna má í heild sinni á vef Birtings.

Í landsliðinu í hárskurði

Íris fluttist út til Þýskalands rétt tvítug. Það voru hæfileikar hennar í hárskurði sem leiddu til
þess en í fyrstu stóð alls ekki til að setjast þar að. „Þetta var árið 1986,“ segir hún. „Ég var komin inn í íslenska landsliðið í hárskurði og þurfti að fá þjálfara. Siggi Ebenhoh leiðbeindi mér og þegar ég ákvað að dvelja áfram fékk ég vinnu hjá honum í Mainz. Þetta var rosalega skemmtilegt tímabil og ég náði mjög langt á stuttum tíma. Ég var auðvitað mjög ung og þess vegna beindist mjög fljótt athyglin að mér. Á þessum tíma kepptu eiginlega bara karlmenn í hárskurði og allt í einu var þarna komin íslensk stúlka og þar að auki svona ung. Þess vegna skapaðist svona hype í kringum mig. Stórfyrirtæki á borð við Wella, Davines og Paul Mitchell eru alltaf að leita að forystusauðum. Fólki sem þau setja upp á svið til að leiða stórar sýningar. Þetta er heimur sem við þekkjum ekki hér á Íslandi. Þrjár risahársýningar eru haldnar ár hvert, ein í Bologna, ein í Dusseldorf og ein í Las Vegas. Í senn eru þetta vörusýningar og „show“. Stóru fyrirtækjunum er því mikið í mun að vera með hæfileikafólk á sviðinu.

Þegar ég var tuttugu og sjö ára var ég fengin til að vera master associate fyrir Paul Mitchell í Þýskalandi og ég hélt því starfi þar til ég flutti heim til Íslands aftur árið 2007. Ég fór út um allan heim. Það var alltaf verið að senda mann eitthvert. Þetta byrjaði í litlum hópum en varð stöðugt stærra og stærra. Paul Mitchell var lítið fyrirtæki þegar ég byrjaði og í dag er það eitt stærsta hárvörufyrirtæki Þýskalands. Það var mjög áhugavert að taka þátt í þessu. Auk þess var ég allt í einu komin upp á svið aftur. Þjóðverjar kalla það „Rampensau“ eða sviðssvínið það er manneskjan sem stelur senunni. Sumum finnst mjög erfitt að fara upp á svið, í þeirra huga er það eitt það versta í heimi en mér líður blessunarlega mjög vel á sviði.“

„Ég ákvað einhvern tíma að gera bara það sem mér finnst gaman. Ég hef auðvitað lent í alls konar hlutum í lífinu, misst foreldra mína og skildi við fyrri manninn minn, það voru ekki auðveldir tímar.“

Auglýsing

læk

Instagram