Íslenskar konur handteknar á Vesturbakkanum í morgun

Auglýsing

Tvær íslenskar konur og tvær franskar voru handteknar á Vesturbakkanum í morgun þar sem þær voru að aðstoða palestínskan bónda við að tína ólífur. Með því ætluðu þær að tryggja að hann yrði ekki fyrir aðkasti ísraelskra landtökumanna. Ísraelskir hermenn komu á vettvang í morgun og sögðu þær vera á lokuðu svæði. Voru þær fluttar á lögreglustöð til yfirheyrslu.

„Við vorum þarna fjórar konur á vegum International Women Peace Service að tína ólífur með bónda í Burin. Þá kom herinn og sagði að við værum á hernaðarlega lokuðu svæði sem við vissum ekki og höfðum engar forsendur til að vita um,“ sagði Björk Vilhelmsdóttir í samtali við fréttastofu Mbl klukkan tíu í morgun.

„Þeir vildu fá vegabréfin okkar sem við gáfum ekki upp því við viljum geta komist aftur hingað á svæðið og höfðum ekki gert neitt ólöglegt. Við vorum fjórar friðsamar konur, þrjár ömmur og ein ung. Fyrir þetta vorum við handteknar, settar í bíl og færðar í varðhald í landtökubyggðinni Ariel. Við erum þar núna og búið að vera mikið vesen í kringum þetta. Við erum að fara í yfirheyrslu núna. Við erum enn í varðhaldi, ég og Tinna Eyberg Örlygsdóttir frá Íslandi og tvær franskar fullorðnar konur.“

„Við höfum ekki gert neitt af okkur svo við erum alveg rólegar. Við vorum bara að tína ólífur í sakleysi okkar en vorum ekki með vegabréf sem er mikil synd.“

Auglýsing

Konunum var sleppt stuttu síðar og þeim gert grein fyrir því að ef þær létu aftur sjá sig við ólífutínslu á Vesturbakkanum yrðu þær handteknar og mættu sæta ákæru.

„Við vorum í haldi í þrjá tíma en við erum eiginlega verr staddar núna, á landtökusvæði hér í Ariel. Nú fyrst erum við orðnar ólöglegar, enda landtökusvæði ólögleg samkvæmt alþjóðalögum, en ekki einhver ólífutínslusvæði eins og við vorum á. Við erum að leita að leigubíl núna til að komast í burtu, við höfum aldrei verið áður á landtökusvæði, við erum alveg dauðhræddar hérna,“ segir Björk í samtali við Stundina.

Björk er búin að vera í þrjár vikur í Palestínu en á flug til Íslands á morgun. Hún segir að það muni koma í ljós hvort henni verði á einhvern hátt gert erfitt fyrir á heimleiðinni en vissulega hafi ýmsir sem lent hafa upp á kant við ísraelsk stjórnvöld fengið að finna fyrir því. „Ég hef bara mestar áhyggjur af því að mér verði meinað að koma aftur.“

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram