Íslenskt tónlistarlíf setur kynjajafnrétti í öndvegi

Íslenskt tónlistarlíf setur kynjajafnrétti í öndvegi.

 

  • Tólf af helstu stofnunum íslensks tónlistarlífs hafa í þessari viku undirritað hina svokölluðu Keychange-skuldbindingu (e: The Keychange Pledge). Um er að ræða eftirfarandi aðila; FTT, FÍH, Gaukurinn, Harpa, KÍTÓN, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Tónlistarborgin Reykjavík, ÚTÓN, Norrænir músíkdagar, Þjóðleikhúsið, Íslenska óperan og Inni Music.
  • Eliza Reid og Anna Þorvaldsdóttir eru Keychange-sendiherrar Íslands.
  • Málstofa undir stjórn Andie Sophia Fontaine verður haldin á fimmtudaginn með Elizu Reid, Andra Snæ, Sóleyju Tómasdóttur og Cell 7.
  • Iceland Airwaves og STEF leiða Keychange-hreyfinguna á Íslandi.
Keychange, ásamt samstarfsaðilunum Iceland Airwaves og stuðningsaðilunum STEFi og ÚTÓN, eru stolt af því að kynna stækkun Keychange-hreyfingarinnar á Íslandi.

 

Fimmtán íslensk samtök hafa nú undirritað Keychange-skuldbindinguna; Iceland Airwaves, LungA, FTT, FÍH, Gaukurinn, Harpa, KÍTÓN, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Tónlistarborgin Reykjavík, ÚTÓN, Norrænir músíkdagar, Þjóðleikhúsið, Íslenska óperan, Inni Music og STEF. Þar með skuldbinda þessi samtök sig til kynjajafnréttis, m.ö.o. stefna að því að hlutur kvenna og annara kyngerfa verði jafn á við hlut karla.

 

Forsetafrú Íslands, Eliza Reid, hefur gengið til liðs við hreyfinguna og tekið að sér að verða sérlegur sendiherra hennar ásamt tónskáldinu Önnu Þorvaldsdóttur, handhafa tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2012.

 

Will Larnach-Jones, framkvæmdastjóri hjá Iceland Airwaves, sagði:
„Það er ákaflega hvetjandi að sjá sífellt fleiri samtök gangast undir Keychange-skuldbindinguna. Það blæs byri í seglinn og stuðlar ótvírætt að raunverulegum breytingum á tónlistar- og menningarlandslaginu. Ísland hefur ávallt staðið framarlega í jafnréttismálum, þannig að það liggur beint við að hérlendar lista- og menningarstofnanir taki þátt í þessari mikilvægu hreyfingu.“

 

Nýi Keychange-sendiherrann, Eliza Reid, sagði við þetta tilefni:
„Tónlist og listir almennt eru eins konar sálargluggi samfélagsins. Mikilvægt er því að listalífið endurspegli mannlífið og fjölbreyttan reynsluheim þess. Framtak Keychange finnst mér lofsvert, því það felur í sér afdráttarlausa hvatningu til allra sem starfa í tónlistargeiranum, í þá veru að hafa kynjajafnrétti og margbreytileika ávallt í hávegum. Jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér og það næst ekki fram með vel meinandi deilingum eða meðmælum á samfélagsmiðlum, heldur þarf samstillt átak, viðleitni, viðvarandi skuldbindingu og áræðni. Eða eins og segir í söngtexta jafnréttissinna á síðustu öld: „Ég þori, get og vil.““

 

Nýi Keychange sendiherrann Anna Thorvaldsdóttir sagði við þetta tilefni:
„Mér er það mikil ánægja að verða hluti af Keychange og að taka þátt í þessu mikilvæga framtaki til eflingar og hvatningar í hinum mörgu geirum tónlistar. Það er satt að segja nánast ótrúlegt að árið 2021 sé enn ástæða til að spyrja spurninga á borð við ‘hvernig það sé að vera kven-tónskáld’ þar sem tónsköpun þekkir hvorki kyn né aðra alhæfandi staðla sem ekki snúa að tónlistinni sjálfri. Það að þurfa að efla, jafna út og fyllilega meðtaka fjölbreytileikann — svo óþarft sé að tiltaka staðla sem ekki snúast um tónlist — er markmið sem ég trúi að verði í komandi framtíð framandi minning.“

 

Fulltrúi þátttakenda í Keychange, Cell7 sagði:
„Mér finnst mikilvægt að koma á jafnrétti kynjanna í tónlistarheiminum til að rétta af þann kynjahalla sem þar hefur ríkt fram til þessa. Jafnræði er einfaldlega sanngjarnt og réttlátt þegar kemur að fjárveitingum sem og áhrifa- og valdastöðum. Áform og skipulagðar áætlanir um jafnræði eru öllum mikilvægar, því lokatakmarkið er jú að allir njóti sama réttar.“

 

,,Markmið verkefnisins ríma algjörlega við stefnumótun Hörpu. Með henni er lögð rík áhersla á samfélagslegt hlutverk og ábyrgð tónlistarhúss þjóðarinnar,  sem er hvort í senn heimavöllur íslenskrar tónlistar og heimssvið fyrir alþjóðlega strauma,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu sem er einn af þeim nýju aðilum sem nú hafa gengið undir Keychange skuldbindinguna.

 

Málstofa á Íslandi um kynjað tungutak
Fimmtudaginn 18. febrúar klukkan 12:30 standa Iceland Airwaves og Keychange fyrir rafrænni málstofu um kynjað tungutak (e. gendered language), tjáningu og inngildingu (e. inclusion). Þar verður m.a. fjallað um áhrif orða á borð við „þeir“ og „tónlistarmenn“ ,hvernig tungumál hefur áhrif á hugsunarhátt og upplifun í tónlistargeiranum og víðar.  Málstofan fer fram á ensku og meðal þátttakenda verður Eliza Reid, forsetafrú, Andri Snær, rithöfundur, Sóley Tómasdóttir, ráðgjafi og Ragna Kjartansdóttir, rappari. Andie Sophie Fontaine stýrir umræðunni.
Fylgstu með málstofunni í gegnum Facebook-síðu Iceland Airwaves hér.
Auglýsing

læk

Instagram