Jón Jónsson heldur stórtónleika í Eldborg

Þann 30. maí ætlar Jón Jónsson að stíga á svið í Eldborgarsal Hörpu til að fagna 10 ára starfsafmæli sínu sem tónlistarmaður. Öllu verður til tjaldað svo upplifunin verði ógleymanleg bæði fyrir afmælisdrenginn sjálfan sem og aðra viðstadda. Jón mun njóta fulltingis okkar fremsta tónlistarfólks til að flytja lögin í sinni stærstu mynd undir styrkri stjórn Ara Braga Kárasonar.

Á þessum 10 árum hefur Jón sent frá sér lög á borð við When You’re Around, Sooner or Later, All, You, I, Ljúft að vera til, Gefðu allt sem þú átt, Þegar ég sá þig fyrst, Á sama tíma, á sama stað og Með þér. Ásamt því að spila á alls kyns uppákomum, stórum og smáum, hefur Jón fengið tækifæri í sjónvarpi og leikhúsi, talsett teiknimyndir og haldið fyrirlestra fyrir ungt fólk um land allt.

„Ég hef notið þeirra forréttinda að eiga traustan hlustendahóp sem hefur mætt vel á tónleika hjá mér í gegnum tíðina. Sá hópur er betur þekktur sem True JJ Fans og stóla ég á að þau mæti í Hörpuna og láti vel í sér heyra,“ segir Jón Jónsson aðspurður um afmælisviðburðinn.

Miðasalan á tónleikana hófst í dag og fer fram á Tix og heimasíðu Hörpunnar.

Auglýsing

læk

Instagram