today-is-a-good-day

Kjartan Guðbrands – Missti móður sína, son og vin á stuttu tímabili

Kjartan Guðbrandsson einkaþjálfari er líklega eini Íslendingurinn sem hefur sigrað keppnir í kraftlyftingum, vaxtarækt, aflraunum, fitness og skotfimi.

Kjartan, sem byrjaði sem unglingur að æfa með Jóni Páli Sigmarssyni margföldum sterkasta manni heims, er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Kjartan hefur fengið stærri skammt af dauðsföllum í nærumhverfi sínu en margir aðrir. Hann var náinn vinur Jóns Páls Sigmarssonar þegar hann lést og missti á mjög stuttum tíma móður sína, son sinn og fleiri nána vini.

,,Ég fékk lexíu í því hvað dauðinn kennir manni á þessu tímabili og það er ekkert sem kennir manni meira. Dauðinn kennir manni það að það er ekkert sjálfsagt og þú skalt njóta hverrar mínútu og hann kennir manni rosalega öfluga lexíu sem er að ganga til hvílu að kvöldi án þess að eiga í illdeilum við fólk. Það er ekkert til verra en óuppgerðir hlutir við fólk sem fer. Ég þekki það eftir að hafa misst báða bræður mína í fyrra og hitteðfyrra.“

Kjartan tók þátt í uppbyggingunni á Gym 80 á árunum áður en Jón Páll lést.
,,Gym 80 var á frábærri leið þegar Jón Páll fór. Þetta var gríðarlegt sjokk og eiginlega svo mikið sjokk að ég náði mér bara ekkert eftir það. Þetta átti ekki að gera gerst,“ segir Kjartan þegar hann talar um daginn örlagaríka.
,,Við ætluðum að taka réttstöðulyftu saman og gervihnattasjónvarpið sem var þarna hafði dottið úr sambandi. Hann var að hita upp niðri þegar ég ætlaði að hoppa upp til að plögga sjónvarpinu í gang aftur. Þegar ég kem niður og labba framhjá afgreiðslunni þá segir sá sem er í afgreiðslunni: ,,Kjartan, ég held að Jón Páll sé dáinn“…þetta er ennþá bara í hálfgerðri þoku. Ég labba inn í sal í einhverri leiðslu og þá liggur Jón Páll þar og hafði greinilega dottið aftur á bak eftir einhvers konar aðsvif. Við vorum þarna þrír að reyna að blása í hann lífi. Ég man að sjúkrabíllinn var mjög fljótur á staðinn, en þetta er enn í móðu eins og ég segi, skuggalegt atvik. En ég man alltaf eftir því að aldrei þessu vant var mamma hans að æfa á þessum tíma og hún segir við mig: ,,Kjartan, Kjartan, hvað er að“…og allt í einu erum við bara komin á spítala og það er lítill gluggi og svo bara kemur einn úr læknateyminu út og segir að þetta sé búið. Þetta er tímabil í mínu lífi þar sem dauðinn ákveður að kenna mér lexíu, af því að mamma fór líka mjög óvænt á svipuðum tíma og svo fór kúnni sem var í þjálfun hjá mér, fleiri vinir og síðan missti ég tveggja daga gamlan son.“ 
Kjartan segir að Jón Páll hafi verið magnaður náungi sem hafi kennt sér gríðarlega margt.

,,Jón Páll var rosaleg fyrirmynd. Ég var svo heppinn að fá að ferðast með honum og sjá hvað hann var vinsæll erlendis. Hagmæltur, fyndinn, fljótur að hugsa. Hann var með allan pakkann. Ofboðslega aðlaðandi maður, góður karakter og góður vinur. Hann nýtti sína orku í ofurmannlegan ,,fókus“ og setti allt í að verða bestur.“

Hann segist aldrei gleyma atvikinu þegar Jón Páll fékk hann til að rífa niður veggi í uppbyggingunni á Gym 80.

,,Þessi hugmynd með Gym 80 vaknaði bara á rúntinum og úr varð mjög mögnuð stöð. Ég gleymi því aldrei þegar það þurfti að brjóta veggina áður en stöðin opnaði af því að þarna var bara íbúð áður. Hann hringir í mig og við mætum með kúbein niður eftir. Hann byrjar með kúbeinið, en svo bara gafst hann upp á kúbeininu og byrjar að hlaupa niður veggina og gefa frá sér rosaleg hljóð. Hann var 140 kíló þarna og þetta var eins og í Marvel mynd. Það vantaði bara merkið framan á hann, því hann hafði allt, alla vöðvana og lúkkið og allt saman.“

Á árunum fyrir hrun fór Kjartan í margar ferðir með útrásarvíkinga og auðmenn, þar sem æft var stíft og borðað hollt eða lítið.

,,Fyrsti túrinn minn er Kanaríeyjar og svo annar til Kúbu sem var mögnuð ferð og síðan koma Tælandstúrar sem voru alveg magnaðir, þar sem var æft stíft í 4 daga og hvílt í einn á milli. Sex til sjö vikna túrar þar sem tekin voru stundum allt upp í 20 kíló af mönnum…….Á Kúbu var ég með einum sem léttist mjög hratt af því ég hafði valið eitthvað afdalasvæði þar sem við vorum í algjöru harki við að finna eitthvað að borða. Þetta var mestmegnis bara hvítt brauð með tómatsósu og í gymminu var bara eitthvað gamalt rússneskt dót, en alveg geggjaður andi. Það var æðislegt kaffi þarna, en maturinn aðallega hvítt brauð, einhverjir ávextir af trjánum og svo ,,Paladres“, þar sem maður fór inn á heimili og maður vissi ekkert hvað var í matinn. Við átum allan andskotann í þessarri ferð,“ segir Kjartan og heldur áfram:

,,Þetta voru skemmtilegar ferðir. Tæland er frábært land með yndislegu fólki. Það var æft grimmt og borðað hollt. En þarna fékk ég líka mín fyrstu kynni af ákveðnu andlegu ferðalagi þegar ég hitti 106 ára gamlan munk í klaustri úti í skógi. Hann leit út eins og hann væri sextugur, teinréttur og flottur. Hann fór að segja mér sögur af Íslandi þó að hann hafi aldrei farið út úr klaustrinu. Hann lýsti Íslandi, dölunum, fjöllunum og lömbunum eins og hann væri að horfa á sjónvarpsþátt. Þarna var ég fyrir miklum áhrifum.“

Í viðtalinu fara Sölvi og Kjartan yfir lífshlaup Kjartans, sem hefur upplifað hluti sem eru lyginni líkastir, eins og tímabilið þegar hann þjálfaði einn ríkasta mann Grikklands. Þeir hittu kraftaverkafólk, keyrðu um Evrópu á Lamborghini og leituðu að geimskipum með leynisamtökum.

Viðtalið í heild má sjá hér að neðan:

Auglýsing

læk

Instagram