Magnús Geir verður Þjóðleikhússtjóri

Auglýsing

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur ákveðið að skipa Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra sem Þjóðleikhússtjóra frá og með 1. janúar 2020. Þetta kemur fram á vef Vísis.

Magnús Geir mun því hverfa frá útvarpsstjóra stólnum í síðasta lagi um áramót og líklegt er að sú staða verði auglýst fljótlega.

Hann hefur sent starfsmönnum hjá Ríkisútvarpinu tölvupóst þar sem hann tilkynnir breytingarnar framundan.

Bréf Magnúsar Geirs til starfsmanna Ríkisútvarpsins:

Auglýsing

Kæru vinir, Mér bárust þau gleðitíðindi rétt í þessu að mennta- og menningarmálaráðherra hyggist skipa mig þjóðleikhússtjóra.

Ég er í skýjunum með þennan mikla heiður og að vera valinn úr hópi svo margra góðra umsækjenda. Eins og ég nefndi þegar ég skýrði ykkur frá ákvörðun minni um að sækja um starf þjóðleikhússtjóra þá hefur ástríða mín fyrir leikhúsinu aldrei slokknað enda hafði ég eytt allri starfsævi minni þar áður en ég hóf störf á RÚV fyrir sex árum.

Um leið er tilfinningin ögn tregablandin að kveðja RÚV og ykkur öll. Við höfum í sameiningu umbylt dagskráráherslum RÚV. Íslenskt efni hefur aukist mikið, KrakkaRÚV hefur slegið í gegn, menningarumfjöllun hefur aukist, hlustun á Rás 1 er meiri en um árabil, hlaðvörp og ýmis ný tækni hefur verið tekin í gagnið, það eru fleiri dýpri fréttaskýringar, við höfum haldið reglulega borgarafundi í beinni útsendingu til að efla lýðræðislega umræðu og fréttastofan nýtur yfirburða trausts.

Það er líka gaman að sjá að þjóðin kann að meta breytingarnar. Viðhorf almennings í garð RÚV mælist nú það jákvæðasta í yfir 10 ár. Eftir fjárhagslega endurskipulagningu hefur reksturinn verið hallalaus á frá árinu 2015, skuldir eru lægri og eigið fé er hærra. Staða RÚV er sterk – sem er gott þar sem mikilvægi öflugs fjölmiðils sem starfar í almannaþágu, hefur sjaldan verið meira en nú. Þá hef ég í tíð minni hér eignast ótal góða vini. Fyrir allt þetta verð ég ævinlega þakklátur.

Með bestu kveðjum, Magnús Geir.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram