Margir á Íslandi með alvarlegt ofnæmi fyrir dýrum?

[the_ad_group id="3076"]

Ég hef búið í þremur löndum fyrir utan Ísland og aldrei hef ég kynnst neins staðar sömu grimmd og miskunnarleysi gagnvart gæludýrum og ríkir hér á landi. Ég á fimmtán ára gamlan kött og vegna ósættis við nágranna okkar út af viðgerðum á húsinu þarf ég nú annaðhvort að láta svæfa hann, þótt hann sé enn við góða heilsu, eða koma honum fyrir á nýju heimili.

Þegar ég var barn bjuggum við um fimm ára skeið í Svíþjóð meðan pabbi minn var að klára nám. Meðan á dvölinni úti stóð áttum við hund, yndislega tík af tegundinni american cocker spaniel. Við bjuggum í húsalengju sem samanstóð af fjórum húsum með tvær íbúðir á sitt hvorri hæðinni í hverju húsi. Við vorum á efri hæð í miðjunni svo til beggja handa voru nágrannar. Einn annar hundur og tveir kettir voru íbúar í húsunum auk okkar og aldrei nokkru sinni heyrði ég styggðaryrði vegna dýranna þessi fimm ár. Kettirnir gengu samt lausir og hundarnir voru iðulega lausir í garðinum á bak við húsin sem þeir bjuggu í. Það kom fyrir að þeir geltu og kettirnir gerðu þarfir sínar þar sem þeim sýndist rétt eins og hér. Við tókum svo

Doppu okkar með okkur heim og strax og hún var laus úr sóttkví byrjuðu vandræði. Pabbi og mamma keyptu sérhæð sem við bjuggum í fyrstu árin og eilíft stríð var við íbúann á neðri hæðinni út af hundinum. Samt var hún óvenjulega þrifinn hundur, felldi ekki hár og fór aldrei inn í sameignina. Mikið vorum við öll glöð þegar pabbi og mamma keyptu einbýlishús. En það var ekki bara hann sem amaðist við dýrinu. Ég fór með hana í göngur tvisvar á dag og hef ekki tölu á hve oft ég fékk alls konar ömurlegar athugasemdir frá fullorðnu fólki. „Þú mátt ekki vera með hundinn á gangstéttinni,“ sagði ein kona. Önnur kvartaði undan því að ég tók ólina af Doppu meðan ég lét hana gera hlýðniæfingar á grasflöt rétt hjá heimilinu. Ég var skömmuð ef einhvers staðar í hverfinu sást skítur, í eitt sinn reyndist það gæsaskítur, því kerlingarnar voru sannfærðar um að ég hef hefði ekki hirt upp eftir hundinn.

„Börnin okkar langaði í gæludýr og við tókum að okkur lítinn blendingshvolp sem bjargað hafði verið af götunni í dýraathvarf.“

Hundurinn alls staðar velkominn

[the_ad_group id="3077"]

Tíminn leið og Doppa mín kvaddi okkur. Eftir stúdentspróf réði ég mig au pair í Þýskalandi og ílengdist. Var þar í tvö ár. Hjónin sem ég var hjá áttu labrador-hund, Bruno, og eitt af mínum verkum var að fara með hann í gönguferðir tvisvar á dag. Ég fór með hann í almenningsgarð rétt hjá heimilinu og þar var afgirt svæði þar sem hundarnir máttu vera lausir. Eigendurinir sátu svo á bekkjum og spjölluðu saman. Ég gat líka tekið hann með mér inn í matvörubúðina þegar ég fór að versla og setið með hann innandyra á kaffihúsi ef ég vildi taka pásu á göngunni. Bruno kom líka með mér inn í fataverslanir og eiginlega hvert sem ég þurfti að fara. Ég man meira að segja eftir gömlum manni sem var með hundinn sinn hjá sér á biðstofu á heilsugæslunni í hverfinu og hundurinn fylgdi honum inn á skrifstofu læknisins.

Ég kom heim aftur og hóf nám í háskóla, lauk því, kynntist manni og stofnaði fjölskyldu. Manninum mínum bauðst starf sem krafðist mikilla ferðalaga og það var hagkvæmara fyrir okkur að ég byggi á Spáni og hann kæmi þangað en að vera hér heima með börnin. Sjálf er ég í þannig vinnu að ég get unnið hvar sem er. Við settumst að í smábæ rétt fyrir utan Sevilla og þar leið okkur óskaplega vel. Börnin okkar langaði í gæludýr og við tókum að okkur lítinn blendingshvolp sem bjargað hafði verið af götunni í dýraathvarf.

Lappi okkar var yndislegur og var hluti af fjölskyldunni í sex ár. Aldrei nokkurn tíma lentum við í neinum vandræðum vegna hans þessi ár og aldrei urðum við vör við annað en hann væri velkomin. Tvisvar sinnum ferðuðumst við með hann þvert yfir Evrópu í sumarfríinu og fengum alls staðar gistingu án nokkurra vandkvæða og hann fékk að vera með okkur hvert sem við fórum. Á veitingastöðum lá hann undir borðinu og fékk að koma inn í búðir þegar við áttum erindi í þær og hann var með í för. Lappi var hins vegar ekki heilsuhraustur, líklega hefur erfið byrjun á götunni ekki hjálpað til og rétt áður en við ætluðum að flytja heim greindist hann með illvígt krabbamein og við urðum að kveðja hann.

„Það er merkilegt hér á Íslandi, í samanburði við önnur lönd sem ég hef búið í, hve margir eru með alvarlegt ofnæmi fyrir dýrum og hve margir eru hræddir við þau.“

Dýrin gjalda eiganda síns

Aftur heima á Íslandi settumst við fyrst að í lítilli leiguíbúð meðan við vorum að leita að framtíðarhúsnæði. Þegar það fannst fluttum við inn og tókum fljótlega að okkur hund, Krösus og köttinn Stjána. Við bjuggum í fimmtán ár í húsinu okkar en þegar börnin fluttu að heiman vildum við minnka við okkur og keyptum hæð í gömlu þríbýlishúsi. Við spurðumst fyrir um það áður en við gengum frá samningum hvort gæludýr væru leyfð og var sagt að svo væri. Krösus og Stjáni fluttu inn með okkur og ekki bar á öðru fyrst til að byrja með en allt væri í lagi.

Við urðum hins vegar fljótt vör við eftir að við fluttum inn að ýmislegt viðhald hafði verið látið sitja á hakanum í húsinu. Maðurinn minn er handlaginn og hefur mikla reynslu af margs konar vinnu við húsaviðhald. Hann tók þess vegna að sér og gerði við margt smávægilegt og við vorum ekkert að rukka fyrir það. En svo kom upp vandamál sem fól í sér stóraðgerð og það vissum við að hann réði ekki við. Það var haldinn húsfundur og annar nágranni okkar var mjög ósáttur við að ráðist yrði í viðgerðir á þessum tímapunkti, sagði að ekki stæði vel á hjá sér fjárhagslega og vildi að beðið yrði. Maðurinn minn og hinn íbúðaeigandinn voru hins vegar sammála um að ekki ætti að bíða. Viðgerðin yrði kostnaðarsamari og skemmdirnar meiri ef það yrði gert. Iðnaðarmaður var því kallaður til og við eigendurnir borguðum honum.

Eitthvað gekk það illa að rukka þennan nágranna okkar sem hafði verið ósáttur við framkvæmdirnar og maðurinn minn sendi skuldina í innheimtu. Fljótlega eftir það fóru að berast kvartanir vegna dýranna okkar. Krösus átti að hafa borið óhreinindi inn í sameigina og Stjáni komið inn í íbúðina þeirra og migið þar. Ég bauðst til að þrífa upp eftir þá en þá var ekki hægt að sýna mér ummerkin. Fleira var tínt til og eilífar kvartanir dundu á okkur hjónunum. Báðir þessir vinir okkar eru í hárri elli og Krösus var orðinn gigtveikur og farinn að missa heyrn. Hann greindist svo með nýrnasjúkdóm nýverið og við urðum að kveðja hann.

Auknar kvartanir

Þá hefði maður nú haldið að hluti vandans væri úr sögunni en í stað þess að minnka jukust kvartanirnar. Nú var Stjáni farinn að trufla svefnfrið nágrannans og þótt ég margsegði honum að hann færi aldrei út á nóttunni heldur hann því blákalt fram að Stjáni mjálmi fyrir utan gluggann hjá honum allar nætur. Stjáni er enn heilsuhraustur þótt hann fari sér hægar en áður og hann er afskaplega blíður og góður köttur. Hann hefur aldrei verið mikil veiðikló og núorðið lætur hann alveg vera að reyna veiðar. Nágranninn segir samt að hann hafi séð köttinn drepa fugla í garðinum og hann hafi borið dauða fugla inn til þeirra. Þegar ég bauðst til að hreinsa það upp og losa þau við hræin sagðist hann þegar búinn að því. Ég bað þá um að næst yrði ég kölluð til en það gerir hann ekki. Kemur bara og kvartar aftur og aftur.

Nýlega bárust svo fréttir af því að Reykjavíkurborg hafi fjarlægt kött frá heimili sínu og týnt honum. Þá fór hann að hóta okkur dýraeftirlitsmönnum og kærum til fjöleignahúsnefndar. Við erum í öngum okkar yfir þessu. Það er erfitt að kveðja dýrin sín en að láta svæfa kött sem enn er við góða heilsu kemur ekki til greina að mínu mati. Ég get samt ekki þolað þetta áreiti mikið lengur og veit ekki hvað ég á að gera. Mér finnst ekki vel gert gagnvart Stjána að finna honum nýtt heimili jafngamall og hann er orðinn. Dóttir mín vildi gjarnan taka hann en hún býr fjölbýlishúsi og þar má alveg búast við kvörtunum og leiðindum komi kötturinn þangað.

Það er merkilegt hér á Íslandi, í samanburði við önnur lönd sem ég hef búið í, hve margir eru með alvarlegt ofnæmi fyrir dýrum og hve margir eru hræddir við þau. Kannski er það fyrst og fremst vegna þess að stutt er síðan að við fórum að halda gæludýr en ég hef samt grun um að illkvittni stjórni og ráði för í mörgum tilfellum. Eigendur liggja vel við höggi þar sem dýrin þeirra eru annars vegar. Dýrin eru réttlaus og við þar með líka. Margir hafa þurft að láta lóga fullkomlega heilbrigðum og góðum dýr vegna þess að nágrannar þeirra hafa viljað ná sér niðri á þeim.

Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Auglýsing

læk

Instagram