Markmiðið að búa sér til hlýlegan griðastað

Auglýsing

UMSJÓN/ Guðný Hrönn
MYNDIR/ Rakel Rún Garðarsdóttir

Úr tímariti Húsa og híbýla

Ljósmyndarinn Anastasía Andreeva býr í notalegri íbúð í Vesturbæ Reykjavíkur ásamt eiginmanni sínum Andra Elvari Guðmundssyni og tæplega eins árs syni þeirra Viktori Orra og Elíasi, eldri syni Andra. Anastasía er ljósmyndari og mikill fagurkeri og ber heimili hennar vitni um smekkvísi hennar. Þau hjónin hafa staðið í ströngu við að taka íbúðina í gegn síðan þau festu kaup á henni í júní 2021 en núna eru hlutirnir loksins að smella, þó að heimilið sé í stöðugri þróun að sögn Anastasíu og eiga þau enn eftir að fínpússa nokkra hluti.

Anastasía er frá Rússlandi og er menntaður ljósmyndari, hún starfar sem slíkur og hefur mestan áhuga á að mynda fólk og fjölskyldur og fanga minningar og mikilvæg augnablik, svo sem búðkaup. Samhliða ljósmynduninni þá starfar hún í móttökunni í Kvosin hótel en er sem stendur í fæðingarorlofi.

Anastasía flutti til Íslands árið 2015 til að stunda nám hér á landi. Hún segist hafa heillast af Íslandi en ætlaði sér þó ekki að flytja hingað til lengri tíma.

„Svo hitti ég núverandi eiginmann minn,“ segir hún og hlær. Fljótlega eftir að þau kynntust þá flutti Anastasía inn til Andra sem átti íbúð á Öldugötu í miðbæ Reykjavíkur, þau kunnu vel við sig þar en svo kom að því að þau þurftu að stækka við sig þegar Elías flutti inn til þeirra og þau komust að því að þau ættu von á barni. „Við fluttum í Dunhaga í desember 2021, þá höfðum við búið á Öldugötu í nokkur ár og lagt mikla vinnu í að taka þá íbúð í gegn, en Andri hafði búið í henni frá árinu 2005.“ Hún segir þau hafa reynt að finna nýja eign í póstnúmeri 101 en eftir þónokkra leit fóru þau að skoða sig um í Vesturbænum og fundu réttu eignina þar. Hún viðurkennir þó að hún hafi ekki verið hrifin af nýju íbúðinni fyrst þegar hún skoðaði hana. „Andri sá möguleikana í henni, ekki ég,“ segir hún og skellir upp úr.

Auglýsing

„Eina sem ég sá voru meiri framkvæmdir, en ég var komin með nóg af slíku i bili.“ Hún segist hafa séð að það er greinilega slegist um fasteignir í Vesturbæ og því þurftu þau að hafa hraðar hendur þegar kom að því að gera tilboð, því gafst ekki tími til að gera almennilega ástandsskoðun.

Blái liturinn í stofunni heitir Midnatt blå frá Gjøco, keyptur í Byko.

Húsið var byggt árið 1958 og teiknað af Sigvalda Thordarson, íbúðin er sérlega sjarmerandi en ýmsir hlutir voru þó komnir til ára sinna. „Ég ákvað að treysta Andra og við stukkum á þetta og vorum heppin að fá íbúðina,“ segir Anastasía sem er himinlifandi með nýja heimilið núna þó að hún hafi verið efins fyrst.

Hún segir staðsetninguna, gluggasetninguna og fallegt útsýnið vera meðal þess sem heillar hana. „En svo kom í ljós að íbúðin var í verra ástandi en við töldum fyrst, það blasti við um leið og við fengum afhent og fórum í niðurrif.“ Nokkrir gluggar láku og þurfti að skipta um þá og laga vatnsskemmdir, skipta þurfti út nánast öllum lögnum ásamt því að taka niður vegg og gera eldhús og baðherbergi upp. „Önnur lögnin sprakk í miðjum framkvæmdum en hin rétt áður en við fluttum inn, þá var búið að leggja nýtt gólfefni sem þurfti að rífa aftur upp,“ segir hún og dæsir við að rifja þetta upp.

„Þetta var stórt bakslag og við fórum langt yfir kostnaðaráætlun. Þess vegna eigum við enn eftir að laga og klára nokkra hluti, t.d. að leggja teppi á stigann og flísaleggja veggi í eldhúsinu.“ Hún lýsir þessu sem verkefni í vinnslu og eru þau ekkert að flýta sér. „Svo var ég komin fimm mánuði á leið þegar við byrjuðum í framkvæmdunum, sem flækir hlutina aðeins,“ bætir hún við brosandi.

SKANDINAVÍSKIR STRAUMAR

Þegar hún er beðin um að lýsa stílnum sem hún aðhyllist á hún svolítið erfitt með að segja til um hvernig hann er. „Ég myndi segja að þetta séu skandinavískir straumar með dassi af litum.“ Hún segir markmiðið hjá þeim í raun hafa verið að skapa hlýlegt og notalegt rými þar sem auðvelt er að ná slökun eftir amstur dagsins.

„Við elskuðum íbúðina sem við áttum áður, við lögðum mikla vinnu í endurbætur á henni og vorum ánægð með útkomuna. Ég var t.d. mjög hrifin af litunum sem ég valdi þar inn þannig að við ákváðum að setja sömu liti á veggi nýju íbúðarinnar. Við erum með þennan fagurbláa lit í stofunni, grænt í svefnherberginu og svo er viðurinn gegnumgangandi og aðrir náttúrulegir þættir.“

Íbúðin er rúmir 124 fermetrar, á þriðju hæð.

Anddyrið og viðarverkið í kringum stigann fangar augað um leið og gengið er inn í íbúðina. „Viðurinn var illa farinn þannig að okkur þótti góð lausn að mála hann svartan, það sama á við um innbyggðu fataskápana sem eru á gangi íbúðarinnar. Það passar líka vel vegna þess að við erum með svarta litinn gegnumgangandi í íbúðinni, t.d. í rofum og blöndunartækjum. Eins erum við með allt svart og hvítt inni á baðherbergi og einn svartmálaðan vegg inni á gestabaðherbergi.“

AÐ SKAPA EITTHVAÐ SEM GLEÐUR AUGAÐ

En hvaða rými ætli sé í mestu uppáhaldi? „Ég elska stofurýmið og eldhúsið,“ segir Anastasía án þess að hika. „Þetta rými var áður hólfað niður og eldhúsið lokað en Andri sá strax fyrir sér að opna á milli og breyta þessu í opið rými.”

Hún segir þau hjónin verja miklum tíma í eldhúsinu og þá sé þægilegt að hafa opið inn í stofu og geta fylgst með Viktori Orra leika sér þar. „Þetta er klárlega uppáhaldsrýmið okkar. Reyndar líka baðherbergið en við vorum með agnarsmátt baðherbergi þar sem við bjuggum áður en núna erum við með þetta rúmgóða rými sem kemur sér vel.“

Áður fyrr var veggur á milli eldhússins og stofunnar en þau létu taka þann vegg niður og útkoman er þetta opna og flæðandi rými.

Aðspurð hvort grunnur hennar í ljósmyndun hafi áhrif á hvernig heimilið hennar er og hvernig hún nálgast það þá svarar hún játandi. „Já, mjög líklega. Ég hef yfirleitt skýra sýn og það hjálpar að vera með reynslu í að sjá hlutina fyrir sér áður en þeir eru framkvæmdir.“

Hún segist stöðugt vera að reyna að skapa eitthvað sem gleður augað. Innblásturinn kemur annars héðan og þaðan en hún segir Pinterest vera frábært tól þegar kemur að hugmyndavinnu og á hún það til að gleyma sér á þeirri síðu langtímum saman við að skoða ýmislegt sem viðkemur heimili og hönnun. „Svo hef ég líka unnið á mörgum stöðum sem eru frábærlega vel innréttaðir, bæði hér á landi og á erlendis, innblásturinn kemur líka þannig til manns,“ segir Anastasía og tekur Kex Hostel sem dæmi.

Húsgögnin koma úr ýmsum áttum að sögn Anastasíu en þau hafa t.d. verslað mikið í IKEA og Ilvu.

„Annars hef ég gaman af því að flakka á milli ólíkra verslana og skoða og sjá hvað heillar mig hverju sinni. Ég fann t.d. þennan hægindastól í Línunni, hann er í miklu uppáhaldi enda mjög þægilegur,” segir Anastasía og bendir á stólinn sem stendur í einu horni stofunnar.

Áhugasamir geta fylgst með þeim ljósmyndaverkefnum sem Anastasía er að fást við í gegnum vefinn hennar, anastasiiaandreeva.com.

MEÐFYLGJANDI ERU MYNDIR AF RÝMUNUM EINS OG ÞAU LITU ÚT ÁÐUR EN ÞAU HÓFUST HANDA VIÐ FRAMKVÆMDIR

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram