„Mér finnst ég vera heppnasta stelpa í heimi“

Tónlistarkonan Laufey hefur slegið í gegn með tónlist sinni og sérstök rödd hennar, sem er eins og silkimjúkt flauel, heillað þá sem hafa hlustað. Hún gaf út fyrstu plötu sína, Everything I Know About Love, í ágúst síðastliðnum og hefur verið á tónleikaferðalagi um Bandaríkin og Evrópu síðustu vikur. Laufey ber millinafnið Lín og það vill loða við hana í íslenskum fjölmiðlum en hér verður hún „bara“ Laufey þar sem hún vill nota það sem listamannsnafn, enda íslenska fornafnið líklega alveg nógu flókið fyrir útlendinga að bera fram. Tónlistarferill Laufeyjar er án efa rétt að byrja en þótt Laufey segist eiga sér stóra drauma er hún ákveðin í að hafa báða fætur á jörðinni. Hún hafi séð marga fara illa út úr því að láta velgengnina stíga sér til höfuðs.

að er árla morguns í Los Angeles þegar blaðamaður í Kópavogi slær á þráðinn til Laufeyjar sem heilsar brosandi á tölvuskjánum, enn í náttfötunum. Blaðamaður óskar henni til hamingju með nýju plötuna og spyr hvort hún trúi því hversu langt hún sé komin þrátt fyrir ungan aldur og stuttan tíma sem þetta allt hefur í raun tekið. „Nei, ég trúi því varla,“ segir Laufey, „þetta er búið að vera alveg ótrúlegt og ég þakka mínum sæla á hverjum degi. Mér finnst ég búin að vera heppnasta stelpa í heimi.“

 

VAR DAUÐHRÆDD UM AÐ ÞURFA AÐ BYRJA „ÞENNAN SIRKUS“ AFTUR

Laufey stundaði nám við hinn virta tónlistarskóla Berklee College of Music í Boston þegar COVID skall á og öllu var skellt í lás í skólanum, sem og svo víða annars staðar. Hún segist hafa ákveðið að nýta tímann vel og hún hafi ákveðið að hún yrði að finna sér eitthvað að gera, eitthvað annað en bara læra því ekki mátti fara neitt eða gera að ráði. „Á þessum tíma var ég nýbyrjuð að semja og finna svona sándið mitt.

Ég hafði verið búin að reyna að semja í langan tíma og það gerðist bara rétt áður en COVID skall á að ég fann þessa fullkomnu blöndu af djass, poppi og klassík sem ég var búin að vera að leita að. Ég ákvað þess vegna að byrja að semja, eins mikið og ég gat, og vera dugleg að pósta stuttum myndböndum á Instagram og Tiktok. Bæði tók ég upp lög sem ég hafði samið, sem hljómuðu oft eins og gamlir djassstandardar, og djasslög sem mig langaði að taka. Þetta óx rosalega á fyrstu þremur, fjórum vikunum sem ég var heima. Þetta var svona „the perfect storm“ eins og þeir segja hérna úti; allt gerðist einhvern veginn á samatíma og hlutirnir fóru að gerast mjög hratt.

Ég held að ég hafi bara verið heppin með tímasetninguna; þetta var heppilegur tími og það var mjög gott fyrir mig að nýta hann til að vinna í sjálfri mér sem listamanni og í sándinu mínu. Ég hafði reyndar tekið upp fyrsta lagið mitt, Street by Street, daginn sem ég fór frá Berklee en ég var með þetta lag klárt og vinur minn var tilbúinn að pródúsera það. Ég man að það kom tilkynning frá skólanum að allir yrðu að fara heim, bara strax og ég sagði við sjálfa mig að ef ég myndi ekki taka lagið upp núna áður en ég færi, þá myndi ég aldrei gera það. Þannig að á meðan mamma og Júnía systir mín voru að pakka niður dótinu mínu í herberginu mínu á heimavistinni var ég að taka upp lagið. Ég gaf það svo út sjálf á netinu; ég var ekki með samning við plötufyrirtæki eða neitt svoleiðis. Og já, svo bara leiddi eitt af öðru, ég var dugleg að setja efni inn á samfélagsmiðlana mína og var byrjuð að fá pósta frá plötufyrirtækjum sem vildu bjóða mér samning.

En ég var ákveðin í að ég ætlaði ekki að fara að skrifa undir neitt án lögfræðings eða umboðsmanns þannig að ég var alein í þessu til að byrja með og fann að ég þurfti á umboðsmanni að halda. Þetta er örugglega eitt það leiðinlegast við að vera listamaður og það kom mér dálítið á óvart hvað er mikil vinna í kringum þetta. Ég þurfti einhvern til að sjá um allt svona fyrir mig, og líka til að hjálpa mér að … Já, móta ferilinn minn,“ segir hún og hlær létt.

„Ég geri líka frekar mikið grín að sjálfri mér í textunum mínum því lífið er stundum dálítið alvarlegt og mér finnst að maður eigi ekki að taka það of alvarlega.“

„Ég var svaka stressuð því ég var búin að tala við nokkra umboðsmenn og fannst enginn passa en ég þurfti nauðsynlega á umboðsmanni að halda eins og ég sagði svo þetta var alveg farið að hvíla aðeins á mér. En þetta hafðist og ég byrjaði að vinna með umboðsmanninum mínum um haustið 2020. Ég man að þegar ég hitti hann í fyrsta skipti á Zoom-fundi var ég með stjörnur í augunum og vissi strax að ég myndi vilja vinna með honum. Sko, umboðsmaðurinn manns þarf að vera besti vinur manns, þið talið saman á hverjum einasta degi. Þetta er bara eins og að vera í sambandi þannig að það þarf að ríkja gott traust og vinátta. En hann var að vinna með öðrum listamönnum sem voru miklu, miklu stærri en ég og ég var dauðhrædd um að hann myndi ekki vilja vinna með mér eftir að prufutímanum lyki og ég þyrfti að byrja þennan sirkus aftur. En núna erum við búin að vinna saman í tæp tvö ár og hann er einfaldlega frábær og búinn að hjálpa mér mjög mikið. Hann hefur svo mikla og víðtæka reynslu og er búinn að díla við sinfóníur og djassfestivöl en er samt líka algjör poppgæi þannig að hann nær að díla við alla þessa heima sem ég er í rauninni að ná til með tónlistinni minni.“

 

FÆR INNBLÁSTUR ALLS STAÐAR

Laufey er með tæplega þrjár milljónir mánaðarlegra áskrifenda á Spotify og plata hennar Everything I Know About Love, sem kom út 26. ágúst síðastliðinn, hefur slegið rækilega í gegn. Á plötunni eru þrettán lög og Laufey segist sækja sér innblástur víða. „Mig langar að vera nútímalegur listamaður og ná til unga fólksins. Tónlistin mín er blanda af djass, klassík og poppi en mig langar ekki að vera skilgreind sem djasssöngkona, þannig séð. Það er farið með mig eins og ég sé popptónlistarmaður og tónlistin mín er flokkuð sem popp eða indí og það er markmiðið mitt. Mér finnst frábært að kynna kynslóðina mína fyrir djasstónlist og klassískri tónlist og til þess nota ég til dæmis Instagram og Tiktok, eins og aðrir nútíma popptónlistarmenn, og það er svo skemmtilegt að sjá að unga fólkið, sem er að mestu leyti sá hópur sem hlustar á tónlistina mína, er að upplifa svona tónlist í fyrsta skipti. Sem er markmiðið mitt,“ segir hún og brosir. „Sögurnar sem ég er að segja í lögunum og textunum mínum eru nútímalegar og ég held að þær tali til unga fólksins.“

Þetta er brot úr lengra viðtali sem finna má í heild sinni á vef Birtings.

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Gemma Warren

Auglýsing

læk

Instagram