today-is-a-good-day

Mjög hissa á ákvörðun Mountaineers of Iceland:„Við áttum ekki von á að neitt svona væri að fara að gerast“

Kristinn Ólafsson björgunarsveitamaður var hluti af fjölmennu útkalli á Langjökul í nótt þar sem 39 ferðamenn lentu í háska í vélsleðaferð á vegum Mountaineers of Iceland. Hann er mjög undrandi á ákvörðun ferðaþjónustufyrirtækisins að fara í ferðina í ljósi slæmrar veðurspár.

„Við fáum útkall eitthvað í kringum hálf níu leytið og leggjum af stað um níu. Það tekur um þrjá tíma að komast austur. Lítði skyggni alla leið á Hellisheiði. Þegar við komum á svæðið um eittleytið er ástandið ótrúlega gott. Það hafði tekist að koma bílum þarna uppeftir. Síðan komu snjóbílar um leið og við á svæðið. Þá var hægt að koma fólkinu inn í heita bíla. Þá strax batnaði ástandið til muna,“ segir Kristinn.

„Það var mjög blint, ekkert skyggni. Við vorum að keyra eftir siglingartækjum, GPS tækjum. Við vorum að sjá kannski tvo til þrjá metra fram fyrir okkur stundum. Mikil ofankoma, mikill vindur þannig að þetta var alveg snarbrjálað veður. Mjög krefjandi aðstæður. Snjórinn smaug inn um allt. Tækin áttu í erfiðleikum með að ganga. Snjór í lofthreinsurum og bílum. Þetta var bara erfitt en gekk alveg ótrúlega vel.“

„Það voru allir í samfestingum, með hjálma og vettlinga. Það voru komnir bílar á svæðið. Búið að troða fólkinu inn í bíla og skýla því fyrir vindi. Þannig að það leit betur út en maður átti von á,“ segir Kristinn.

Hann skilur ekkert í Mountaineers of Iceland að hafa lagt af stað í ferðalagið í ljósi slæmrar veðurspár.

„Mér finnst það mjög undarleg ákvörðun. Það var gul viðvörun og þetta útkall kom okkur mjög mikið á óvart. Við ræddum það á leiðinni. Við áttum ekki von á að neitt svona væri að fara að gerast. Það voru flestir sem héldu sig heima.“

Auglýsing

læk

Instagram