Nýstofnuð Samtök vetnis- og rafeldsneytisframleiðenda

Samtök vetnis- og rafeldsneytisframleiðenda er nýr starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins. Stofnfundur samtakanna var haldinn fimmtudaginn 18. nóvember í Hörpu. Í samtökunum eru fyrirtæki sem öll eru tengd vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu.

Þessi nýju samtök hafa það að markmiði að fræða almenning, atvinnulíf og stjórnvöld um umhverfislegan og efnahagslegan ávinning vetnis. Samtökunum er auk þess ætlað að hafa áhrif á mótun nýrra staðla og regluverks þar sem miðað er að samkeppnishæfum starfsskilyrðum.

Í stjórn Samtaka vetnis- og rafeldsneytisframleiðenda eru Auður Nanna Baldvinsdóttir, IðunnH2, formaður, Eyjólfur Lárusson, Carbon Iceland, Hallmar Halldórsson, Clara Artic Energy, og Tryggvi Þór Herbertsson, Qair Iceland.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI: „Samtök iðnaðarins eru að stíga stórt skref með stofnun þessa nýja starfsgreinahóps. Ísland hefur margt fram að færa í grænum lausnum og með þessum nýju samtökum skapast vettvangur þar sem hvatt verður til rannsókna, þróunar og innleiðingar á endurnýjanlegu eldsneyti og orkuöflunar fyrir slíka framleiðslu. Þarna er um að ræða öflugan faghóp fyrirtækja sem vilja hafa áhrif á uppbyggingu samkeppnishæfs starfsumhverfis og ímyndar Íslands sem ákjósanlegs lands fyrir framleiðslu á vetni og rafeldsneyti.“

Auður Nanna Baldvinsdóttir, formaður Samtaka vetnis- og rafeldsneytisframleiðenda: „Með stofnun þessara samtaka er verið að leggja grunn að framgangi og vitundarvakningu um mikilvægi vetnis og rafeldsneytis sem nauðsynlegs þáttar í orkuskiptum, sérstaklega í stærri farartækjum sem erfitt er að rafvæða. Hagkvæm og umhverfisvæn vinnsla á grænu eldsneyti gæti orðið eitt stærsta framlag okkar sem þjóðar á sviði loftslagsmála, lækkað til muna innflutning á jarðefnaeldsneyti og skapað dýrmæt hátæknistörf fyrir Íslendinga.“

Mynd/Birgir Ísleifur

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Hallmar Halldórsson, framkvæmdastjóri Clara Artic Energy, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, Tryggvi Þór Herbertsson, stjórnarformaður Qair Iceland, Auður Nanna Baldvinsdóttir, framkvæmdastjóri IðunnH2, Eyjólfur Lárusson, framkvæmdastjóri Carbon Iceland, og Lárus M.K. Ólafsson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI.

Auglýsing

læk

Instagram