ONTOLICA – Opnun næsta föstudag í MIDPUNKT

Verið velkomin á opnun einka sýningar Unnar Andreu Einarsdóttur ONTOLICA í Midpunkt Hamraborg næstkomandi föstudag þann 19. nóvemer kl. 17:00. Listamaðurinn mun flytja gjörning á opnuninni kl. 17:20 & 18:20 og mun sýningin standa til 28. nóvember.

ONTOLICA er vídeó- og hljóðinnsetning ásamt gjörningi og var upphaflega sýnt í Gallery Blunk í Noregi árið 2020.

Titill sýningarinnar Ontolica vísar í hugtakið ontology  sem nefnist á íslensku verufræði sem er grein innan frumspekinnar sem leitast við að rannsaka veruleikann.

Það má líta á verk Unnar Andreu sem tilraunir til að holdgera hið stafræna og með því varpar hún ljósi á efnislega tengingu sem er ómissandi í mannlegum samskiptum. Lífsreynsla okkar verður sífellt óefniskenndari þar sem upplifanir okkar fara í auknum mæli fram í gegnum stafræna miðla og þar með verður félagslegur- og pólitískur veruleiki sífellt afstæðari. Unnur skoðar í verkum sínum hvernig starfæni samtíminn er bæði kaótískur og ófyrirsjáanlegur og getur valdið því að einstaklingar aftengist raunsamfélagi og upplifi félagslega einangrun – en vert er að benda á að verkið var unnið fyrir fyrstu bylgju Covid.

Unnur Andrea er með tvískiptan feril en hún er nýkomin frá Grikklandi þar sem hún kom fram ásamt FRZNTE  á opnun sýningarinnar H2H í Aþenu sem er grískt -íslenskt samstarfsverkefni Kling&Bang og A-Dash gallerís í Aþenu. Unnur býr og starfar í Noregi og á Íslandi. Hún lauk BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2005 og mastersprófi frá Listaháskólanum í Þrándheimum, árið 2019. Í verkum sínum blandar hún saman myndböndum, innsetningum og gjörningum og leitast við að skapa upplifanir í rauntíma. Unnur hefur bakgrunn sem tónlistarkona og því er notkun hljóðs og tónlistar oft mikilvægur þáttur í verkum hennar. Eftir útskrift sína hefur Unnur tekið þátt í sýningum m.a. í Trondheim Kunstmuseum og Galleri Atelier Nord  og var eitt verka hennar valið til þátttöku í Meta.Morf tvíæringnum í Þrándheimum og ARS Electronica hátíðinni í Austurríki, en báðir teljast mikilvægir viðburðir á sviði lista og tækni í Evrópu.

Sýningarstjóri er Hrafnhildur Gissurardóttir.

Styrktaraðilar:  Myndlistarsjóður og Myndstef.

Auglýsing

læk

Instagram