Prófar alltaf eitthvað nýtt á jólunum

[the_ad_group id="3076"]

Matgæðingurinn Sigríður Pétursdóttir er alls ekki vanaföst þegar kemur að jólamatnum, þvert á móti hefur hún þá hefð að gera tilraunir í matargerð og bakstri í kringum hátíðirnar. Tímarit Húsa og híbýla* fékk Sigríði til að töfra fram jólalegan eftirrétt fyrir okkur og útkoman er gómsætt granóla með þeyttum jurtarjóma og ferskum berjum sem hún setti í krúttlegan hátíðarbúning. Granólað slær alltaf í gegn, að hennar sögn, og hægt að borða það við hin ýmsu tilefni.

Hvaða matur eða réttur er ómissandi á jólunum? „Mér finnst satt best að segja enginn matur ómissandi, en piparkökur hafa fylgt mér frá barnæsku og alltaf komið mér í jólaskap á aðventunni. Ég gladdist mjög þegar mér tókst að þróa piparkökur sem henta mínu mataræði.“

Ertu mikið í eldhúsinu í kringum jólin? „Já, en ég er reyndar svo heppin að vera gift matreiðslumeistara svo hann ber hitann og þungann af hátíðarmatnum. Ég sé hins vegar um jólabaksturinn, nammið og eftirrétti og það vill svo til að það finnst mér skemmtilegast.“

Ertu vanaföst þegar kemur að jólamat? „Nei, alls ekki. Framan af ævinni hélt ég reyndar í hefðir og borðaði það sama og borið var á borð á æskuheimilinu, en eftir að við Garðar byrjuðum að búa saman varð það eina hefðin að prófa alltaf eitthvað nýtt á jólunum. Sú hefð kom sér vel þegar ég þurfti heilsunnar vegna að breyta um mataræði. Ég held ég hafi sjaldan notið matarins betur, því það er heilmikil áskorun að elda mat sem er vegan, glútenlaus og án sykurs og aukaefna, svo það er gaman þegar vel tekst til. Ég er reyndar ekki alveg vegan því ég borða sjávarafurðir, svo humar hefur oft orðið fyrir valinu á aðfangadag.“

[the_ad_group id="3077"]

Heldur þú í einhverjar jólahefðir? „Ég hlusta á sömu lögin, horfi á sömu kvikmyndirnar og baka mikið á aðventunni. Kertaljós og seríur gera allt betra. Ég skreyti líka alltaf með sama jólaskrautinu, sem sumt er margra áratuga gamalt. Á aðfangadag hlusta ég á messuna í útvarpinu, kemst við yfir fegurð tónlistarinnar og salta matinn með tárum eins og amma.“

Uppáhaldsjólamynd? „Mér finnst mjög erfitt að velja, en ætli Þetta er yndislegt líf sé ekki á toppnum. Svo horfi ég yfirleitt alltaf á Kraftaverk á 34. stræti, gömlu útgáfuna frá 1947, en líka Love Actually og Holiday. Svo eiga Home Alone-myndirnar sérstakan stað í hjartanu því ég horfði alltaf á þær með stráknum mínum.“

Uppáhaldsjólalag? „Hin fyrstu jól með Ingibjörgu Þorbergs og af erlendum lögum er það The Christmas Song með Nat King Cole.“

Hvernig tími eru jólin fyrir þér? „Friðsæll og notalegur. Dýrmætar samverustundir með fjölskyldu og vinum.“

Hvað getur þú sagt mér um uppskriftina sem þú deilir hér með okkur? „Ég ákvað að velja þessa uppskrift vegna þess að hún er einföld og þetta glúten- og sykurlausa granóla er í miklu uppáhaldi hjá öllum í kringum mig. Það er mjög erfitt fyrir þá sem eru vegan, með glútenóþol, og þola ekki sykur, að fá góða eftirrétti. Á veitingastöðum er undantekning ef það er einn slíkur á boðstólum og í mesta lagi að manni eru boðin ber eða ávextir með engu. Uppskriftin sýnir að það þarf ekki að vera flókið að breyta því til hins betra.“

FERSK BER MEÐ GÓMSÆTU GRANÓLA
jarðarber
bláber
granateplafræ
20 g 85-100% súkkulaði
þeyttur kókos- eða hafrarjómi

Magn fer eftir þeim fjölda sem þið eruð með í mat og hversu stórar eftirréttarskálar þið
notið.

GRANÓLA
1/3 bolli pekanhnetur, saxaðar gróft
1/3 bolli kasjúhnetur, saxaðar gróft
1/4 bolli glútenlausir hafrar
1/4 bolli poppað kínóa
10-15 g vegansmjör
4 dropar karamellu-stevía
1/2 tsk. hreint vanilluduft
1/2 tsk. Ceylon-kanill

Takið fræin úr granateplunum og skerið jarðarberin niður eins og ykkur finnst best. Saxið súkkulaði. Skellið söxuðum pekan- og kasjúhnetum á heita pönnu og þurrristið þar til þær byrja að taka lit og ilmurinn er indæll. Bætið þá höfrum og poppuðu kínóa saman við og ristið aðeins áfram.

Setjið smjörið, vanillu, kanil og stevíu þá út á pönnuna og hrærið vel saman. Það er fínt að leyfa smjörinu að bráðna aðeins á miðri pönnunni áður en allt er hrært saman. Kælið.

Blandið jarðarberjum, bláberjum og granateplafræjum í eftirréttaskálar eða falleg glös. Dreifið granóla yfir og toppið með söxuðu súkkulaði. Þekið með þeyttum kókos- eða hafrarjóma. Hægt að skreyta með granóla, súkkulaði og granateplakjörnum, nú eða búa til jarðarberjajólasvein ef ykkur finnst gaman að föndra. Granólað geymist vel í glerkrukku og til dæmis hægt að nýta afganginn á morgunverðargrautinn, nú eða út á salat, ofan á kökukrem eða í sælgætisbita með bráðnu súkkulaði.

 

*grein þessi er endurbirt með leyfi

Auglýsing

læk

Instagram