Ráðist á Íslendinga í Brighton

Tveir íslenskir ferðamenn voru fluttir á sjúkrahús eftir að ráðist var á þá í miðborg Brighton í Bretlandi, aðfaranótt laugardags.

Að sögn fréttamiðla þar ytra veittist hópur dökkklæddra manna að Íslendingunum, börðu þá og úðuðu óþekktu efni á andlit þeirra. Vitni að árásinni sögðu lögreglumenn hafa hlaupið uppi tvo árásarmannanna, sem báðir eru sagðir 17 ára gamlir og grunaðir um alvarlega líkamsárás og brot á vopnalögum.

Íslendingarnir tveir voru fluttir á Royal Sussex County-sjúkrahúsið í Brighton til aðhlynningar, þar sem gert var að andlitsáverkum þeirra. Þeir hafa nú verið útskrifaðir.

Haft er eftir rannsóknarlögreglumanni á vef TheArgus að þetta hafi verið „ógeðfelld árás á gesti borgarinnar,“ og biðlar hann til vitna um að gefa sig fram og aðstoða þannig lögreglu við rannsókn málsins. Greint var frá þessu á vef Vísis.

Auglýsing

læk

Instagram