Röntgen á Vagninum í sumar

Hið geysivinsæla reykvíska öldurhús, Röntgen, mun í sumar sjá um rekstur menningarhússins, knæpunnar og veitingastaðarins Vagnsins á Flateyri. Samningar um slíkt tókust fyrr í mánuðinum eftir drykklanga fundarstund forsvarsmanna staðanna tveggja.

Röntgen mun formlega taka yfir þann 1. júní en ekki er stefnt að því að miklar breytingar verði gerðar á rekstri Vagnsins heldur frekar að styðja enn frekar við það frábæra starf sem unnið hefur verið á staðnum undanfarin ár.

Stefnt er að því að hafa staðinn opinn alla daga vikunnar og að fjölbreyttir viðburðir verði í hverri viku, t.d. tónleikar, uppistand, bingó, pub quiz, drekkutímar o.fl.o.fl. Þá ríkir gríðarlega eftirvænting vegna umsjón veitingarstaðarins en hún verður í höndum spænska parsins, Álvaro Andrés og Inma Verdú. Munu þau töfra fram mikilfenglegan tapas/pintxos að spænskum sið en auk þess verður lögð áhersla á spænskt léttvín, cava, sangríur og fleira gúmmelaði.

Bókanir á staðinn eru nú þegar farnar að hrannast inn enda ríkir nokkur eftirvænting með afléttingu samkomutakmarkana. Meðal þeirra listamanna sem eru nú þegar staðfestir eða eru í viðræðum um að koma fram má nefna KK, Ari Eldjárn Jógvan & Friðrik Ómar, Ragnheiður Gröndal, GÓSS, Mugison, Blaz Roca, Jakob Birgis, Snorri Helgason & Saga Garðars, Ylja, Moses Hightower, Lay Low, Emmsjé Gauti, Babies og svona mætti lengi telja…

„Spennan fyrir sumrinu er því mikil og er það einlæg ósk og metnaður allra aðila að sumarið verði það besta í sögu Vagnsins,“ segir í tilkynningu.

Auglýsing

læk

Instagram