Sameinuðust í matarástinni

Spænsku hjónin Álvaro Andrés Fernandez og Inmaculada Verdú Sánchez og íslenska parið Viktor Gíslason og Jenný María Unnarsdóttir kynntust í fyrrasumar þar sem þau störfuðu öll á spænskum veitingastað á Flateyri. Þau komust fljótt að því að þau áttu matarástina sameiginlega ásamt því að dreyma um að opna veitingastað. Ekki leið að löngu þar til lítil hugmynd varð að veruleika og í dag reka þau veitingastaðinn El Faro á Lighthouse Inn-hótelinu við Garðskaga. Þau segja markmið sitt vera að bjóða sælkerum upp á gómsætan mat í notalegu umhverfi.

Þetta er brot úr lengra viðtali sem aðgengilegt er á vef Birtings.

Álvaro og Inma eru yfirkokkar El Faro en þau búa yfir reynslu og þekkingu úr veitingageiranum.
„Þau lærðu bæði matreiðslu í þekktum matreiðsluskóla í Baskalandi, heimalandi Álvaros, og þar hófst ástarsamband þeirra. Þau eru mjög hrifin af ferðalögum og hafa unnið víðs vegar um heim, t.d. í Skotlandi, Póllandi og Tenerife svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Jenný María.

Þau Álvaro og Inma hafa nú komið sér vel fyrir hér á landi og kunna vel við sig á Íslandi. Viktor og Jenný María höfðu hins vegar ekki bakgrunn úr veitingageiranum áður en þau settu El Faro á laggirnar en þau eru bæði atvinnuflugmenn. Þau dóu ekki ráðalaus þegar þau misstu vinnuna í Covid-faraldrinum og fóru þá vestur í útivistarskóla. „Við ílengdumst yfir sumarið og kynntumst þá Álvaro og Inmu.“

Þegar þau eru spurð út í hvernig hugmyndin að El Faro hafi fæðst segir Viktor: „Við hittumst í fyrrasumar á Flateyri þar sem við unnum saman á spænskum veitingastað sem var starfræktur þar yfir sumartímann. Inma og Álvaro sáu um eldhúsið og við Jenný María unnum í veitingasalnum. Það mynduðust sterk vinabönd á milli okkar og við sáum fljótt að við unnum vel saman. Eftir ævintýralega gönguferð yfir Hornstrandir í lok sumars komumst við að því að við deildum sömu áhugamálum, þar á meðal á mat. Og það var í þessari ferð sem við áttuðum okkur á því að við gætum látið sameiginlegan draum okkar rætast – sem var að opna eigin veitingastað.“

Jenný og Viktor taka fram að þau höfðu gengið með þá hugmynd í maganum í mörg ár að opna stað í sínum heimabæ, Garðinum, en þeim fannst þau ekki vera með réttu menntunina í það. „Þegar við kynntumst svo Álvaro og Inmu, þessum frábæru manneskjum og hæfileikabúntum, og komumst að því að þau höfðu sama draum fannst okkur við hafa fundið rétta púslið til að láta drauminn rætast.“

Hugmyndin varð svo að veruleika í apríl á þessu ári. „Það er auðvitað ekki á hverjum degi sem maður opnar veitingastað, og hvað þá með fólki sem maður hefur bara þekkt í nokkra mánuði. En þetta sýnir bara vel þau sterku vináttubönd sem mynduðust okkar á milli á skömmum tíma,“ segir Viktor en það er fjölskylda hans sem á og rekur hótelið Lighthouse Inn.

Umsjón/ Guðný Hrönn
Myndir/ Hallur Karlsson
Auglýsing

læk

Instagram