Setja spurningarmerki við flugrekstrarreynslu stjórnendateymisins

Auglýsing

Erfiðlega hefur gengið að fá innlenda fjárfesta til að leggja lággjaldaflugfélaginu Play til samtals tólf milljónir evra, jafnvirði um 1.700 milljóna króna, í hlutafé en Íslensk verðbréf (ÍV) hafa á síðustu vikum biðlað til fjárfesta um að koma að fjármögnun félagsins.

Fjárfestingin hefur verið kynnt fyrir einkafjárfestum og fyrirtækjum en gert er ráð fyrir að stofnendur og aðrir starfsmenn Play komi til með að eiga 50 prósenta hlut á móti tilvonandi fjárfestum.

Markaðurinn á Vísi hefur heimildir fyrir því að fjárfestar hafi sett sig upp á móti því að stofnendur Play eignist svo stóran hlut í flugfélaginu. Einnig hafa þeir sett spurningarmerki við flugrekstrarreynslu stjórnendateymisins. Þykja viðskiptaáætlanir félagsins helst til bjartsýnar en gert er ráð fyrir því að Play verði strax farið að skila um 70 milljóna hagnaði á fyrsta fjórðungi næsta árs og hafa fjárfestar kallað eftir því að fenginn verði kjölfestueigandi að flugfélaginu í hlutafjárútboðinu.

Að sögn stjórnenda Play hefur félagið tryggt sér 40 milljóna evra lánsfjármögnun frá breska sjóðnum Athene Capital sem hefur sömuleiðis kauprétt að tíu prósenta hlut í Play og þarf félagið að vera með átta milljónir evra í reiðufé sem veð fyrir láninu sem ber átta prósent vexti.

Auglýsing

Í fjárfestakynningu ÍV segir að lánsfjármögnunin virkist þegar hlutafjárins hafi verið aflað en í viðtali við ViðskiptaMoggann í síðustu viku sagði Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, að flugfélagið „þyrfti ekki 12 milljónirnar til þess að tryggja þessar 40 milljónir“.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram