Starfsmaður á Keflavíkurflugvelli grunaður um umfangsmikið fíkniefnasmygl

Starfsmaður á Keflavíkurflugvelli og tveir fyrrverandi starfsmenn á flugvellinum eru í gæsluvarðhaldi grunaðir um umfangsmikið fíkniefnasmygl. Eru þeir grunaðir um að hafa smyglað nokkrum lítrum af amfetamínbasa og rúmlega tveimur kílóum af kókaíni til landsins.

„Þetta mál kemur upp 23. október síðastliðinn. Lögreglumenn í almennu umferðareftirliti höfðu hér afskipti af borgara sem leiddi til þess að það var lagt hald á töluvert magn fíkniefna,“ segir Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Mennirnir , sem fæddir eru árið 1992 og 1991, voru handteknir og úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald grunaðir um að hafa smyglað efnunum til landsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu Vísis er um að ræða rúmlega tvö kíló af kókaíni og nokkra lítra af amfetamínbasa. En amfetamínbasi er fljótandi amfetamín sem notað er til að framleiða amfetamínduft. Úr einum lítra er hægt að fá hátt í 12 kíló af amfetamíni.

„Rannsókn málsins er á viðkvæmu stigi og því miður getum við ekki gefið út frekari upplýsingar hvað það varðar,“ segir Jón Halldór í samtali við Vísi.

Auglýsing

læk

Instagram