Tengslamyndunarfundir fyrir íslenskt tónlistarfólk á Airwaves Pro ráðstefnunni 6.-8. Nóvember

ÚTÓN og STEF kynna með stolti, í samráði við Airwaves Pro og Iceland Airwaves, röð tengslamyndunarfunda og viðburða sem færa saman erlenda gesti úr tónlistargeiranum og íslenskt tónlistarfólk og fyrirtæki.

Vinnustofur með erlendum tónlistarráðgjöfum

STEF í samstarfi við ÚTÓN heldur tvær vinnustofur með erlendum tónlistarráðgjöfum (e. music supervisors) miðvikudaginn 6. Nóvember, sem er fyrsti dagur Iceland Airwaves hátíðarinnar. Fyrri vinnustofan er haldin klukkan 10-12 og sú síðari klukkan 14-16.

Þessar árlegu hlustunar vinnustofur gefa listamönnum tækifæri til að bera tónlist sína undir alþjóðlega tónlistarstjóra, eða music supervisors, en það er samheiti yfir fólk sem er að sjá um kaup á tónlist í ýmiskonar myndefni, t.a.m. sjónvarpsþætti, auglýsingar, kvikmyndir og tölvuleiki. Þarna verða tónlistarstjórar sem unnið hafa að verkefnum eins og Vikings, The Handmaid’s Tale, Moonrise Kingdom o.fl. Tónlistarstjórar rýna í tónlistina og veita ráð með hvernig hún myndi henta í mismunandi verkefni, eða ekki.

Vinnustofurnar kosta ekkert og skráning er hafin – sendið tölvupóst á info@stef.is þar sem fram kemur hvort henti ykkur betur að vera kl.10 eða 14 eða hvort tímasetningin skipti ekki máli. Einnig þarf kennitala umsækjanda að koma fram. Umsóknarfrestur er til 17. október nk.

Tengslumyndunarfundir

Aukið við tengslanet ykkar og finnið hugsanlegt samstarfsfólk á þessum árlegu tengslamyndunarfundum sem ÚTÓN setur saman. Í ár verða fundirnir á fimmtudeginum 7. og föstudeginum 8. nóvember klukkan 10:30 til 12 á hádegi, sem hluti af Airwaves Pro ráðstefnunni.

Viðstaddir verða aðilar frá útgáfufyrirtækjum, umboðsmenn, tónleikahaldarar, bókunarskrifstofur og fleiri. Tónlistarfólk fær tækifæri á að hitta fjölbreytta flóru fólks úr geiranum á 10 mínútna “speed dating” fundum þar sem fólk hittist og getur síðan haldið áfram samtalinu seinna á hátíðinni, ef það er vilji til.  Með yfir 20 aðila á staðnum, gefst fólki tækifæri til þess að stækka tengslanet sitt til muna og auka við þekkingu sína og snapa ýmiskonar nytsamar ráðleggingar sem nýtast við að byggja upp ferilinn.

Íslendingar geta sótt um með því að fylla út þetta eyðublað; umsóknarfrestur er til 21. Október 2019.

Öllu íslensku tónlistarfólki er velkomið að sækja um.

Auglýsing

læk

Instagram