„Þetta er bara níð á mér og ég veit ekkert af hverju“

Þorbergur Aðalsteinsson, fyrr­verandi lands­liðs­þjálfari í hand­bolta, furðar sig á umfjöllun um það sem kallað var tilraunir til flugráns þegar vél Wizz Air á leið til Keflavíkur var lent í Stavangri í ágúst síðastliðnum.

Hann er ósáttur við að enginn hafi reynt að heyra í sér en hann hefur einungis fengið að heyra að hann er ekki velkominn í flug með þeim næstu tólf mánuði.

„Þarna akkúrat hafði ég ekki tekið neinar verkja­töflur og leið nokkuð vel en það sem gerist er að ég sofna ekkert fyrir þann tíma þannig ég er búinn að á­kveða að fá mér eina svefn­töflu áður en ég fer í vélina klukkan sjö og ég sofna mjög fljót­lega,“ segir Þor­bergur.

Hann vaknar þremur tímum síðar, pantar sér morgunmat hjá flugfreyju en var einungis með evrur en ekki greiðslukort.

„Ég sit fremst í vélinni og þið vitið hvernig borðið kemur upp og þetta er allt vesen og ég illa vaknaður. Það hleypur ein­hver pirringur í hana út af þessu öllu og hún rífur morgun­matinn bara af borðinu,“ segir Þor­bergur.

„Ég stend upp og labba alveg fremst og henni hefur eitt­hvað brugðið. Svo reyndi ég að fara á klósettið og var örugg­lega svo­lítið ör í snúningum. Svo labbaði ég að henni og spyr hvort hún geti ekki reddað þessu og það er enn pirringur í henni. Svo sest ég í sætið og ég sofna,“ segir Þor­bergur.

Hann segir að þegar hann hafi vaknað um 45 mín seinna hafi einkennileg atburðarrás farið af stað. Hann er beðinn um að framvísa vegabréfi, sem hann neitar í fyrstu, en gefur svo eftir með það.

„Svo dotta ég á­fram og svo veit ég ekki fyrr en að vélin er að fara að lenda í Stavangri. Þá heyri ég bara í há­talaranum að vélin er að fara að lenda,“ segir Þor­bergur. En hann neitar því að komið hafi til handalögmála og er ósáttur við fréttir um það í fjölmiðlum.

„Svo opnast hurðin. Kemur ekki lög­reglu­kona á fleygi­ferð með svona skjöld og beint að mér og kallar á mig að vera ró­legur. Ég horfi á hana og svo vinstri til hægri og var svo bara hand­járnaður og borinn út,“ segir hann. En mikill viðbúnaður var fyrir utan vélina, sem Þorbergur furðaði sig á.

„Það voru allir yfir­heyrðir í kringum mig og á­höfnin. Það voru allir sam­mála um að það hafi ekkert gerst. Lög­reglan felldi svo málið niður,“ segir Þor­bergur. En hann segir Ís­lending í vélinni hafa hringt í Hring­braut og málið svo spunnist þannig, líkt og hann hafi reynt að ræna vélinni. Aðrir fjöl­miðlar hafi svo fylgt þessu eftir.

„Þetta er bara níð á mér og ég veit ekkert af hverju og ég veit ekkert hver þessi maður er,“ segir Þor­bergur.

Þor­bergur var til við­tals í Bítinu á Bylgjunni um málið og furðaði sig á um­fjöllun fjöl­miðla um málið.

Þetta kom fram á vef Fréttablaðsins.

Auglýsing

læk

Instagram