„Tók mig um tvö ár að ná mér á ákveðinn núllpunkt“ 

Sigrún María Hákonardóttir er einstaklega glaðlynd, dugleg og jákvæð ung kona. Hún stofnaði líkamsræktarstöðina Kvennastyrk sem hún lagði hjarta sitt í að byggja upp og fékk viðurkenningu fyrir. Nýverið seldi hún stöðina eftir að hafa lent í kulnun og fengið taugaáfall. Stór ástæða ‏þess voru erfið samskipti við einstakling sem hún telur narsissista og í kjölfarið tjáði hún sig um þá persónuleikaröskun og hvað fólk geti gert til að vinna sig frá erfiðum samskiptum við þá. Hún segir að lífið gerist og lítur svo á að hún komi sterkari út úr þessari reynslu og fái með því tækifæri til að hjálpa öðrum í svipaðri stöðu. Neðangreint viðtal er úr forsíðuviðtali nýjasta tölublaðs Vikunnar. 

Sigrún María fæddist í Connecticut í Bandaríkjunum og flutti til Íslands þegar hún var enn í grunnskóla en svo fór fjölskyldan aftur út þar sem föður hennar bauðst mjög góð staða í Fíladelfíu. Hún fór því á milli þessara tveggja landa meðan á skólagöngunni stóð, allt frá gagnfræðaskóla og upp í háskóla. Sigrún lærði viðskiptafræði úti en kláraði námið í HR og lokaritgerðina úti. Það að alast upp og ganga í skóla í tveimur ólíkum löndum hefur sannarlega mótað hana. Hún sér kosti og galla í báðum löndum og vill nýta það sem hún telur best frá þeim báðum.

„Ég var svona 50% úti og 50% hér heima. En ég vil vera á Íslandi, finnst það langbest, og vil ala upp börnin mín ‏þrjú hér. Ég er Íslendingur í húð og hár en með ákveðnar rætur í Bandaríkjunum. Það var gott að fá ákveðið viðhorf þaðan – þar er einhvern veginn allt önnur menning og allt önnur hugsun ‏en hér. Það er til dæmis rosalega mikil virðing borin fyrir kennurum og yfirmönnum sem er gott því hún er allt of lítil á Íslandi en það má vera einhver millivegur; að kunna að bera virðingu fyrir þeim sem eru yfir og finnast maður ekki alltaf eiga rétt á þessu og hinu, en líka gott að hafa þetta frjálsa val og geta verið maður sjálfur eins og er hér en vantar úti. Það eru kostir og gallar alls staðar.“

Slys sem breytti öllu

Sigrún fór í viðskiptafræði 18 ára „af því ég bara vissi ekkert hvað ég vildi gera“ eins og hún segir. Eftir það kom hún alflutt heim.

Hvað tók þá við? „Ég vissi ekkert hvað ég vildi gera og endaði á að starfa á fasteignasölu en svo brann ég út fyrst árið 2011, 21 árs,“ segir Sigrún og hlær létt, þó að það sé ekkert léttvægt fyrir svo unga manneskju nýútskrifaða úr háskóla. „Þetta vita mjög fáir, en ég var búin að vera á yfirsnúningi síðan ég var unglingur. Þegar ég lít til baka ‏þá ætti þetta ekki að vera gerlegt fyrir neinn það sem ég gerði. Það var ákveðin keyrsla sem stoppaði ekki fyrr en fimm árum síðar ‏þegar ég klessti á vegg og lenti í kulnun. Ég upplifði kvíða og þunglyndi en á þessum tíma var kulnun ekkert í umræðunni þannig að þetta var afgreitt sem þunglyndi. En ég sé núna að þetta var kulnun,“ segir hún brosandi. „Það tók mig um tvö ár að ná mér á ákveðinn núllpunkt.“

Sigrún var ekki búin að finna sína hillu á þessum tíma og ákvað að fara aftur í háskóla í annað nám. „Ég prófaði að fara í hjúkrunarfræði en ég þoli ekki sprautur ‏þannig ég entist eina önn,“ segir læknisdóttirin og hlær. „Ég fór því í áhugasviðspróf og kom sterk út í náms- og starfsráðgjöf og ákvað að kýla á það og klára masters-nám auk þess sem ég vann á skrifstofu al‏þjóðasamskipta í HÍ og síðar í Nemendaskránni.“ Samhliða þessu var Sigrún að bæta við sig einkaþjálfaranámi og hóptímakennaranámi ‏en að setja upp æfingar og mæta í ræktina var hennar helsta áhugamál.

„Ég er orkumikil og þarf að starfa mikið, þetta er eitthvað sem mun aldrei fara frá mér, ég þarf bara að vera á fullu þannig funkera ég. Viku eftir að ég kláraði masters-námið árið 2016, þá 26 ára, ók bíll á mig þegar ég var að hjóla heim úr vinnunni. Ég slasaðist en slapp ‏‏þó vel en er samt enn að fá bakverki og mun líklegast alltaf gera. Ég fór í endurhæfingu á Reykjalundi sem var frábært, fólk vann saman, sem vantar á svo mörgum stöðum, og þar er unnið mjög gott starf í teymisvinnu.

Eftir slysið og endurhæfinguna komst ég fljótt að ‏því að ég gat ekki unnið í sitjandi stöðu. Ég reyndi að vinna í HÍ í 50% stöðu en eftir klukkustundarvinnu stífnaði ég öll upp og þurfti að komast úr stólnum. Ég þurfti hreyfingu og ‏þarna fannst mér ég standa frammi fyrir tveimur valkostum; að fara á bætur eða finna mér eitthvað annað að starfa við sem útheimti ekki mikla kyrrstöðu. Ég hafði þetta áhugamál að þjálfa en mig grunaði ekki að ég gæti unnið við það. Þegar ég prófaði gekk það svona glimrandi vel og endaði á ‏þ‏ví að ég opnaði mína eigin líkamsræktarstöð. Það magnaða við ‏‏þetta er að ég var búin að ákveða ‏þetta en vissi ekki hvenær ‏þetta myndi gerast. Ég er „all in“-manneskja og frá 2016 hef ég verið með „vision board“ ‏þar sem ég skrifa drauma mína og markmið niður og hafa allir draumarnir og markmiðin ræst hingað til, nema  tveir sem ég sé fram undan að munu rætast ‏þ‏annig að lífið getur verið alveg magnað. Ef maður ákveður eitthvað og vinnur markvisst að ‏því‏ þá gerast hlutirnir, maður veit bara ekki hvenær.“

Lesa má viðtalið í heild sinni á vef Birtings. 

 

Texti: Ragnheiður Linnet
Myndir: Hallur Karlsson 

Auglýsing

læk

Instagram