Tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson býður í sannkallaða veislu í Háskólabíói í mars á næsta ári. Þar mun Herbert „flakka um ferilinn“ eins og hann orðar það sjálfur en af nægu er að taka. Herbert steig fyrst á sjónarsviðið í kring um 1970 og þá sem söngvari hljómsveitarinnar Tilvera.
Síðan þá hefur Herbert gefið út hvern slagarann á fætur öðrum og má þar nefna hið ódauðlega lag „Can‘t Walk Away“ en sá smellur hefur fylgt íslenskri þjóð frá árinu 1985 eða í 38 ár. Sagan á bakvið það er ótrúlega mögnuð en lagið varð til í gæsluvarðhaldsklefa númer 6 á Skólavörðustígnum. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en að Herbert segi frá tilurð lagsins í þessari tónleikaveislu sem fer fram þann 8. mars.
„Það er einvalalið tónlistarmanna sem koma fram með mér á tónleikunum en þetta er í fyrsta skiptið sem ég fer svona í gegnum ferilinn,“ segir Herbert sem enn í dag gefur út slagara sem þjóðin heyrir á öldum ljósvakans og á þeim ófáu viðburðum sem hann hefur verið bókaður á síðustu daga, vikur, mánuði og ár. Meðal þeirra sem koma fram er Eurovision-stjarnan Diljá ásamt Stefáni Hilmarssyni.
Er brjálað að gera hjá þér?
„Já, heldur betur!“
Miðasala á tónleikana hófst í morgun á Tix.is og eftir því sem Nútíminn kemst næst fer hún ansi vel af stað. Hægt er að kaupa miða með því að smella hér!
Enginn íslenskur tónlistarunnandi ætti að láta þessa veislu framhjá sér fara þar sem Herbert mun flakka um ferilinn eins og honum einum er lagið!