Viðbragðsaðilar hafa verið að störfum í alla nótt við leit að unga manninum

„Verið er að senda fleiri hópa frá Reykjavík til að aðstoða við leitina. Þau fóru í morgun og eru á leiðinni norður á björgunarsveitabílum,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við Fréttablaðið.

En unglingspiltur féll í Núpá í Sölvadal í Eyjafirði seint í gærkvöldi. Pilturinn var að vinna við stíflu, ásamt bónda, við að koma á rafmagni þegar krapagusa hreif hann með sér. Bóndinn slapp sjálfur naumlega.

„Það er þarna heimarafstöð og lón og stíflumannvirki sem að þeir voru að vinna við að hreinsa krapa frá inntaki. Þeir stóðu þarna upp á veggnum og öðrum þeirra tókst að forða sér undan bylgjunni og hinum ekki og lenti þarna ofan í ánni sem tók hann með sér,“ sagði Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, í fréttum RÚV í morgun.

Lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér tilkynningu í morgun um stöðuna.

„Maðurinn er ófundinn. Nú er verið að skipta út mannskap á leitarsvæðinu og kalla til enn frekari mannskap frá öðrum svæðum. Stöðufundur á Akureyri þar sem næstu skref í aðgerðinni verða ákveðin.“

Erfiðlega gekk í nótt að komast á vettvang vegna ófærðar og myrkurs og þurfti að fá snjómokstursmenn til að ryðja leið.

Auglýsing

læk

Instagram