Viltu spila Fortnite við íslensku lögregluna í dag?

[the_ad_group id="3076"]

Það er ekki á hverjum degi sem íslenskum ungmennum býðst að spila tölvuleiki við lögregluna. Þetta er að minnsta kosti í fyrsta skiptið sem Nútíminn heyrir af slíku en það er hinsvegar raunin í dag og á fimmtudaginn en þá mun Símon Geir Geirsson, varðstjóri og samfélagslögreglumaður frá Vestmannaeyjum, spila Fortnite frá klukkan 15:00 til 21:00. Um er að ræða þróunarverkefni á vegum Ríkislögreglustjóra í hinum ýmsu Evrópulöndum þar sem lögreglumenn koma saman og spila tölvuleiki við samlanda sína.

„Hef spilað tölvuleiki lengi og hef mjög gaman af þeim.“

Nútíminn sló á þráðinn til Símonar Geirs en hann er staddur um þessar mundir í Osló ásamt lögreglumönnum frá Noregi, Hollandi, Belgíu, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Hann var að hita sig upp fyrir sex klukkutíma tölvuspil þegar við náðum á hann.

Tækifæri til að kynnast ungmennum

„Tölvuleikir og allt umhverfi þeirra er einn stærsti samverustaður ungmenna í dag og eins og í COVID að þá var þetta staðurinn þar sem þau spjölluðu saman. Með þessu gefst okkur tækifæri á að nálgast ungmennin á þeirra forsendum og þeim gefst tækifæri með þessu að spjalla við lögreglumenn og hafa gaman á sama tíma,“ segir Símon Geir og bætir við að þetta sé sömuleiðis tækifæri fyrir lögregluna til þess að fræða ungmenninn um störf hennar.

„Við köllum þetta „samfélagslögregluna“ og þetta verkefni hefur reynst ótrúlega vel í nágrannalöndum okkar. Við tókum eftir því að við vorum að fjarlægjast íslensk ungmenni og þeirra sýn og hugmyndir um lögregluna voru mikið af neikvæðum toga. Með þessu viljum við sýna íslenskum ungmennum að lögreglan er alls ekkert slæm, við erum hér til að aðstoða og hjálpa samborgurum okkar,“ segir Símon og bendir á að embætti víðsvegar um Evrópu hafi til að mynda spilað körfubolta og fótbolta við ungmenni og það sé enn einn vettvangurinn sem hægt er að nýta hér á landi.

En afhverju Fortnite?

[the_ad_group id="3077"]

„Við spjölluðum við ungmennin í Vestmannaeyjum og þá kom í ljós að Fortnite er langvinsælasti leikurinn hjá þeim,“ segir Símon Geir og bætir við að framtakið hafi nú þegar vakið mikla athygli á öllu landinu, ekki bara í Vestmannaeyjum.

„Fullorðið fólk hefur haft samband við mig og spurt hvort það megi spila með mér og það er öllum frjálst að gera það og þessvegna hef ég búið til sérstakan aðgang sem allir geta bætt inn sem „vini“ í leiknum auk þess sem ég verð með sérstaka Discord-síðu þar sem hægt verður að spjalla við mig í beinni,“ segir Símon Geir sem tekur það fram að hann sé ekkert sérstaklega góður í leiknum en heldur ekki sérstaklega slæmur. „Hef spilað tölvuleiki lengi og hef mjög gaman af þeim.“

Þú ert að fara að spila Fortnite í sex klukkutíma. Hefuru engar áhyggjur af því?

„Nei, svo sem ekki. Ég tók smá upphitun í gær ásamt sænskum lögreglumönnum og það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur þegar maður er að hafa gaman. Ég hef meiri áhyggjur af því að færri muni komast að en vilja í dag og á fimmtudaginn,“ svarar Símon Geir og bætir við að þeir sem ekki komist að núna og á fimmtudaginn þurfi engar áhyggjur að hafa því að þetta verði svo sannarlega gert aftur.

„Ég á eftir að heyra í þeim sem bera ábyrgð á verkefninu hjá Ríkislögreglustjóra en það væri gaman að fá öll þessi lönd til Íslands, og þá kannski í haust, til þess að spila tölvuleiki við íslensk ungmenni. Þetta verkefni er í mótun en það er svo sannarlega skemmtilegt og spennandi.“

Eins og áður segir gefst öllum tækifæri á að spila við Símon Geir í Fortnite í dag á milli 15:00 og 21:00 og aftur á fimmtudaginn á sama tíma. Við látum fylgja með bæði notendanafn Símonar Geirs í Fortnite og notendanafn hans á Discord svo allir þeir sem vilja geti fylgst með og tekið þátt!

Fortnite: SGG-1913
Discord: samfelagslogreglanvestmannaeyjum

Auglýsing

læk

Instagram