Þegar ég kom inn á áfangaheimilið Draumasetrið var ég búinn að klúðra öllu.
Tilfinningalega dofinn, andlega og líkamlega búinn á því – og með lítinn sem engan
lífsvilja. Ég kunni ekki að lifa eðlilegu og heilbrigðu lífi. En þar, hjá Elínu og Óla, fékk
ég tækifæri til að læra það. Tækifæri sem að bjargaði lífi mínu og hefur bjargað lífum
ótal annarra.
Ég lærði þar að lífið er til þess að lifa því – ekki bara til að þjást í vonleysi og
sjálfsvorkun. Ég lærði að bera virðingu fyrir sjálfum mér og öðrum,og að elska sjálfan
mig og aðra.
Ég þurfti að mæta á 12 spora fundi, vinna prógrammið, bera ábyrgð á sjálfum mér –
og mínum verkum innan heimilisins, og fara eftir reglum. Ég lærði þar hvað ábyrgð er
í raun og veru. Ég lærði að sýna mér og öðrum mildi. Og það virkaði.
Við erum ekki summa einhverra talna á pappír, við erum manneskjur
Í dag, tæpum 10 árum síðar, á ég enn líf sem er bæði gott og fallegt. Mér hefur tekist
að tækla lífið eins og það birtist í allri sinni mynd, af því ég fékk ramma og stuðning
til að byggja mig upp. Án þessara grunnstoða væri ég líklega ekki hér í dag. Ég er
lifandi vegna þess að mér gafst þetta úrræði þegar ég þurfti nauðsynlega á því að
halda.
Áfangaheimili eru nauðsyn – ekki valkostur
Í allri umræðu um meðferð og forvarnir gleymist oft mikilvægasti hlekkurinn: Hvað
gerist eftir meðferð?
Afeitrun getur gengið vel. Meðferð getur skilað árangri. En ef einstaklingurinn fer
beint aftur út í sama umhverfi og sömu aðstæður – hvað þá?
Þar koma áfangaheimilin inn. Þau eru brúin yfir í gott og heilbrigt líf. Þau veita fólki
tækifæri til að öðlast festu, ramma, öryggi og – ekki síst – von. Þar byrjar
raunverulegur bati fyrir marga.
Án þessa hlekks fara margir forgörðum. Þetta veitir mikilvægt aðhald og stuðning, en
án beggja finna margir sem eru í leit að bata fyrir óöruggi og kvíða, detta út úr
prógramminu, enda aftur í neyslu, lenda á götunni – eða í kerfinu á annan hátt. Og
það er dýrt. Ekki bara í krónum – heldur líka í mannslífum.
Fjárfesting í mannslífum sem borgar sig margfalt
Rannsóknir, m.a. frá National Institute on Drug Abuse, sýna að fjármagn sem sett er í
meðferð og stuðningsúrræði sparar fjór- til sjöfalt í heilbrigðis-, félags- og
réttarkerfinu. Fjöldi erlendra rannsókna sýna líka að falltíðni minnkar verulega þegar
fólk fær aðgang að áfangaheimili eftir meðferð. Því sum okkar þurfa einfaldlega
stuðning og meiri tíma til að ná áttum aftur.
Það ætti að vera sjálfsögð krafa í samfélagi sem vill kalla sig mannúðlegt og
skynsamt – að slíkt úrræði sé tryggt fyrir alla sem á þurfa að halda.
Við erum ekki summa einhverra talna á pappír, við erum manneskjur.
Til ykkar sem bera ábyrgð og vald – á Alþingi og í sveitarstjórnum – vil ég segja
þetta:
Við sem förum á áfangaheimili erum einstaklingar með margbrotnar sögur, með vonir,
vilja og getu – en við þurfum raunverulegt tækifæri. Við viljum verða virkir
þátttakendur í samfélaginu, ekki baggi á því.
Ég fékk slíkt úrræði. Og vegna þess er ég hér í dag – lifandi, ábyrgur, heill maður. Ég
legg mitt af mörkum. Og ég vil að fleiri fái sama tækifæri.
Við getum ekki lengur talað um forvarnir og meðferðir án þess að fjárfesta í því sem
skiptir mestu máli: endurkomunni inn í samfélagið. Það er þar sem raunverulegur bati
á sér stað. Þegar við náum aftur að verða partur af samfélaginu, það er þá sem
ávinningur er mestur ekki bara fyrir okkur sjálf eða okkar nánustu, heldur fyrir allt
samfélagið.
Yfirvöld verða að vakna og sjá hag sinn í að styðja við og fjármagna starfsemi eins og
Draumasetrið, það er ekki munaðarvara. Það er nauðsynleg líflína.