Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins, birtir færslu á Facebook þar sem hann gagnrýnir harðlega EES-samninginn og afleiðingar hans fyrir Ísland.
Hann segir að stjórnarhættirnir sem nú tíðkist séu óásættanlegir og að öll andstaða gegn þeim sé markvisst þögguð með því að stimpla hana sem „öfga-hægri“.
„Í umræðum um EES-samninginn á Alþingi síðustu daga hefur afhjúpast að langstærstur hluti þingmanna aðhyllist valdboðshyggju undir merkjum EES,“ skrifar Arnar Þór. „Það er sem sagt gert ráð fyrir því að Íslendingum BERI að sætta sig við það fyrirkomulag að ESB semji reglur og póstsendi þær hingað til athugsemdalausrar samþykktar og fullkominnar eftirfylgni.“
Afsal löggjafarvalds
Samkvæmt Arnar Þór felst þessi þróun í því að íslenskt þing og dómsvald hafi í raun afsalað sér hlutverki sínu.
Þeir sem gagnrýna þetta kerfi, þar sem reglugerðir ESB eru samþykktar hér án sjálfstæðrar umræðu, eru stimplaðir sem „öfga-hægrimenn.“
Að hans mati er slíkt gert í þeim tilgangi að gera þá tortryggilega og fæla fólk frá að taka undir.
„Mest notaða uppnefnið, sem verið er að gatslíta í fjölmiðlum til þess að fæla fólk frá andmælum, er ‘öfga-hægri’. NB: ‘öfga-vinstri’ er aldrei notað í fjölmiðlum,“ skrifar hann.
„Öfgafólkið“ sem vill frelsi
Í færslunni segir hann að þeir sem þurfi að þola slíkar stimplanir séu passi engan veginn við stimpilinn sem þeim er gefinn.
Þau séu friðarsinnar, standi fyrir jafnrétti, virði lífið frá getnaði til dauða, séu andvíg hjarðhugsun og telji fyrirgefningu betri lausn en heift og refsigleði.
„Þau trúa á frelsi einstaklingsins og að maðurinn sé skapaður í Guðs mynd, en hafna þeirri hugmynd að skilgreina beri einstaklinginn sem hluta af þessum eða hinum hópnum,“ skrifar hann og bætir við: „Í þeirra huga eru börn heilög og þau telja það skyldu sína að verja sakleysið.“
Hann segir þetta fólk standa gegn mismunun, ofbeldi og misnotkun og að það hafi þann skilning að ríkisvaldið eigi fyrst og fremst að verja frelsi borgaranna en ekki að skerða það.
Fjölmiðlar sem pólitískt verkfæri
Arnar Þór beinir spjótum sínum sérstaklega að fjölmiðlum ogsakar þá um að nota pólitíska stimpla til að kæfa umræðu.
Hann nefnir RÚV sérstaklega í því samhengi og kallar eftir nýrri umræðu um lýðræðislega ábyrgð fjölmiðla og hlutverk þeirra í samfélaginu.
„Lýst er eftir lýsingarorði fyrir þá sem eru hinum megin við þá línu sem RÚV o.fl. skilgreina sem hægri-öfgar,“ segir hann. „Ég er að vísa til þeirra sem aðhyllast valdboð og miðstýringu og vilja skerða frelsi manna og þjóða eins og kostur er.“
„Þú ert á réttri leið“
Í lokin hvetur Arnar Þór fólk til að láta ekki stimplanir fjölmiðla og öfgafólks aftra sér frá því að tjá skoðanir eða spyrja gagnrýninna spurninga.
Hann segir að þegar gagnrýnendur hafi ekkert að grípa í nema upphrópanir og stimpla, sé það merki um að maður sé „á réttri leið“.