Mikil ringulreið skapaðist í miðborg Liverpool síðdegis þegar bíll ók inn í hóp stuðningsmanna Liverpool sem voru samankomnir til að fagna meistaratitli félagsins.
Atvikið átti sér stað á Water Street, skammt frá vinsælum verslunarkjarna við The Strand, þar sem þúsundir fylgdust með opinni rútu leikmanna liðsins.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Merseyside var 53 ára gamall karlmaður frá Liverpool handtekinn á vettvangi og er í haldi.
Bíllinn stöðvaðist á vettvangi og ökumaðurinn var yfirbugaður.
Ekki liggur fyrir nákvæmur fjöldi slasaðra en fjölmiðlar segja frá „alvarlegum“ meiðslum samkvæmt heimildum frá lögreglu.
Í myndskeiðum sem deilt hefur verið á samfélagsmiðlum má sjá bíl aka á miklum hraða inn í mannfjöldann, þar sem stuðningsmenn brugðust við í skelfingu og forðuðu sér.
Fjöldi lögreglubíla, sjúkrabílar, slökkviliðsbílar og þyrla voru send á staðinn og hefur Mowgli veitingastaðurinn við Water Street verið gerður að bráðabirgða neyðarmóttöku.
Fagnaðarfjör varð að skelfingu
Atvikið skyggði á annars gleðilegan dag í borginni, þar sem yfir ein milljón stuðningsmanna var samankomin til að fagna fyrsta enska meistaratitli Liverpool fyrir framan stuðningsmenn síðan 1990. Lið Arne Slot lauk tímabilinu með 84 stig, tíu stigum meira en Arsenal.
Rannsókn lögreglu er enn í gangi og óska yfirvöld eftir vitnum og myndbandsupptökum frá vettvangi.
View this post on Instagram
View this post on Instagram