Fyrrverandi UFC-meistarinn í þungavigt, Cain Velasquez, var í gær dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps, vegna skotárásar árið 2022.
Vegna þess tíma sem hann hefur þegar setið í stofufangelsi, rúmlega 1200 daga, á hann nú eftir að afplána tæpa 600 daga, sem þýðir að Velsquez gæti verið laus síðar á þessu ári ef hann hegðar sér vel.
Velasquez, sem er 42 ára, játaði ekki beinlínis sekt heldur samþykkti að hlíta dómi án þess að verja sig gegn ákærunum („no contest“).
Ákærður fyrir að misnota son Velsquez
Atvikið sem leiddi til ákærunnar átti sér stað í febrúar 2022 þegar hann elti bíl í miklum hraða og skaut að honum með skammbyssu.
Í bílnum voru Harry Goularte, maður sem hafði verið nýverið handtekinn og síðar ákærður fyrir að hafa misnotað fjögurra ára gamlan son Velasquez ítrekað, ásamt fjölskyldumeðlim.
Skotið hitti þó ekki Goularte heldur stjúpföður hans, Paul Bender, í handlegginn.
Vildu 30 ára fangelsi
Ákæruvaldið krafðist allt að 30 ára fangelsisvistar, en verjendur Cain báðu um að Velasquez myndi sleppa við fangelsisdóm og studdust meðal annars við mikinn fjölda stuðningsmanna og skjöl sem sýna að Velasquez er að öðru leyti fyrirmyndarborgari.
Dana White sendi bréf – „Allir feður myndu gera þetta sama“
Í málinu bárust einnig mörg meðmæli, þar á meðal frá forseta UFC, Dana White.
Í bréfi sem hann sendi dómstólnum bað hann um vægan dóm og lýsti Velasquez sem fyrirmyndarmanni.
White sagði jafnframt að „allir feður myndu gera það sama og Cain gerði“ ef barn þeirra hefði verið misnotað.
Dómarinn, Arthur Bocanegra, tók með í í útreikning refsingarinnar að Velasquez hefði setið í stofufangelsi í 1.285 daga með ökklabúnað og verið undir GPS-eftirfylgni frá því hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi.
„Það sem ég gerði var ekki rétt“
Í viðtali skömmu fyrir dóminn sagðist Velasquez axla fulla ábyrgð á gjörðum sínum.
Hann sagði að það sem gerði hafi verið rangt, vildi bæta fyrir mistökin og nýta reynsluna til að hjálpa öðrum.
„Ég skil það núna. Ég hef þegar goldið fyrir þetta og mun gera það áfram, en ég get líka miðlað því sem ég lærði,“ sagði hann.
Einn besti bardagamaður sögunnar
Cain Velasquez er talinn einn besti bardagamaður í sögu MMA og var tvívegis heimsmeistari í þungavigt hjá UFC.
Meðan Cain bíður þess að ljúka sinni refsingu, mun málið gegn Harry Goularte halda áfram.
Hann hefur neitað sök í ákæru um kynferðisbrot gegn barni og mun málið verða tekið fyrir fyrir dómi 2. júní.
Velasquez-fjölskyldan hefur einnig höfðað einkamál gegn Goulartes og fyrirtækjum þeirra, þar á meðal leikskólanum sem Patricia Goularte, móðir Harrys, rak – en þeim leikskóla hefur nú lokað.