Rithöfundurinn Stefán Máni, sem nýlega gaf út bókina Hin helga kvöl, var gestur í nýjasta þætti Fullorðins, þar sem hann ræddi um feril sinn, vinnu og viðhorf til listamannalauna.
Hann segir að hann hafi fyrir löngu gefist upp á að sækja um styrki og ákveðið að sjá einfaldlega um sig sjálfur.
„Ég gafst bara upp og fór að vinna“
„Ég hef aldrei verið svona útvalinn,“ segir Stefán þegar hann er spurður hvort hann sé ósáttur við að hafa ekki fengið listamannalaun.
„Ég gafst bara upp á að sækja um þetta og fór að vinna. Ég hef verið í launavinnu síðustu tíu árin eða svo. Það er eitthvað bogið við þetta kerfi, alltaf sömu sem fá og sömu sem fá ekki.“
Hann segir glæpasögur hafa aldrei þótt nógu „fínar“, þrátt fyrir að vera mest lesnar.
„Kannski er ég bara lélegur að sækja um, en verkin mín ættu að tala sínu máli.“
Vill gegnsæi og heiðarleika í úthlutunum
Stefán segir að ef listamannalaun eigi að þjóna tilgangi sínum þurfi kerfið að vera gegnsætt og sanngjarnt.
„Ef ég segist ætla að skrifa bók á níu eða tólf mánuðum og fæ styrk, þá á ég að þurfa að skila þeirri bók. Ef ég geri það ekki, þá á ég ekki að fá styrk aftur. Það er ekki réttlátt að einhver sé fimm ár að skrifa bók á kostnað ríkisins.“
Hann bendir á að Kvikmyndasjóður sé betra kerfi að mörgu leyti.
„Þar er spurt hvort þú sért með framleiðanda eða leikstjóra, eða hvort þetta sé bara draumórar. Það sama ætti að gilda um skáldsögur, hvort þú sért með útgefanda eða samning. Það skiptir máli.“
„Ef útgefendur fara á hausinn, þá er þetta bara búið“
Í þættinum ræddi Stefán einnig stöðu bókmennta og íslenskunnar.
„Við erum á tímamótum. Ef unga fólkið hættir að lesa, þá er þetta bara búið. Þegar jólabókaflóðið fer að dala og fólk hættir að gefa bækur, þá fara útgefendur á hausinn og ef útgefendur fara á hausinn, þá er allt búið.“
Hann segir mikilvægt að styðja þá höfunda sem ná raunverulega til lesenda.
„Lesendur vita alveg hvað þeir vilja, og við þurfum að styðja þá sem ná til fólks, sérstaklega til ungs fólks.“
„Vinsælir höfundar eru mikilvægir“
Stefán tekur fram að vinsælir höfundar eins og Arnaldur Indriðason, Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson séu lykilfólk í íslenskum bókmenntum.
„Ef þú ert vinsæll, þá ert þú mikilvægur. Arnaldur hefur verið það í 25 ár. Það er ekki spurning um hvort þetta sé nógu fínt, þetta er bara mikilvægt. Fólk les þetta, kaupir þetta. Við erum greinilega að skrifa það sem þjóðin vill lesa.“
Þakklátur fyrir lesendur sína
„Ég er heppinn að það sem mér finnst skemmtilegt að skrifa finnst öðrum skemmtilegt að lesa,“ segir Stefán að lokum.
„Ég er þakklátur fyrir það. Það er ekkert sjálfgefið. Ef allir hefðu nú bara áhuga á vísindaskáldskap, þá yrði ég líklega að hætta.“
Hægt er að sjá brot úr viðtalinu hér fyrir neðan en ef þú vilt sjá allan þáttinn geturðu tryggt þér áskrift að Brotkast.is hérna.