„Ég vil hætta að hafa opin landamæri og hafa áfram velferðarkerfi“

Í Silfrinu á RÚV ræddu Snorri Másson, varaformaður Miðflokksins, og Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, um kostnað vegna útlendingamála.

Snorri hélt því fram að heildarkostnaðurinn hlaupi á tugum milljarða, en Ása Berglind mótmælti þeirri túlkun og vísaði til fjárlaga.

Snorri talar um falinn kostnað

Auglýsing

„Formlega talan kann að hafa lækkað á milli ára, en við höfum líka bent á að það er mikill undirliggjandi og falinn kostnaður inn í öllu kerfinu,“ sagði Snorri og nefndi að útgjöld vegna félagsþjónustu og velferðarkerfisins ættu einnig að teljast með.

Ása Berglind: Kostnaðurinn er áætlaður sex til átta milljarðar

Ása Berglind mótmælti og sagði að samkvæmt fjárlögum næsta árs væri kostnaðurinn við útlendingamál áætlaður um sex til átta milljarðar, ekki tugir milljarða eins og Snorri nefndi.

„Það vill þannig til að fólk á rétt á að nýta sér heilbrigðisþjónustu og velferðarkerfi,“ bætti hún við.

Verðum að forgangsraða í þröngum aðstæðum

Snorri sagði að nauðsynlegt væri að forgangsraða þegar þröngt væri í búi. „Auðvitað myndi ég vilja hjálpa öllum í heiminum ef ég hefði þann kost, en ég er að benda á forgangsröðun,“ sagði hann.

„Það er enginn að tala um að hjálpa öllum í heiminum,“ svaraði Ása Berglind. „En við þurfum að taka vel á móti því fólki sem við erum með hér.“

Opin landamæri og velferðarkerfi fara illa saman

Að lokum vísaði Snorri til orða formanns Samfylkingarinnar, Kristrúnar Frostadóttur.

„Ég held reyndar að það hafi verið formaður þíns flokks sem benti á það að hugmyndin um að hafa bæði opin landamæri og velferðarkerfi sé flókin í framkvæmd. Og ég vil hafa það þannig að við hættum að hafa opin landamæri og höfum áfram velferðarkerfi,“ sagði hann.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing