Elon Musk, stofnandi SpaceX og ríkasti maður heims, hótaði í gær að taka Dragon geimfar sitt tafarlaust úr umferð.
Dragon geimförin sem Space-X á og rekur er eina leiðin sem Bandaríkin hafa til að flytja áhafnir til og frá alþjóðlegu geimstöðinni (ISS).
Þessi hótun kemur í kjölfar opinberrar orðræðu milli Musks og Donalds Trump forseta á samfélagsmiðlinum X, þar sem forsetinn gaf í skyn að hann hygðist endurskoða ríkissamninga við SpaceX og Starlink.
„SpaceX mun stöðva ferðir Dragon-geimfarsins strax,“ skrifaði Musk í færslu á X.
Yfirlýsingin hefur valdið óróa innan geimferðaheimsins, þar sem Dragon geimfar SpaceX er nú eina raunhæfa flutningsleið í geimstöðina NASA í bæði mönnuðum ferðum og vöruflutningum.
NASA í hugsanlegri neyð og yrði háð rússnesku Soyuz-förunum
Ef SpaceX stendur við hótun sína mun NASA neyðast til að reiða sig alfarið á rússneska Soyuz-geimförin, sem geta flutt þrjá einstaklinga í senn.
Slíkt myndi þýðaafturhvarf til þess tíma er Bandaríkin þurftu að kaupa sæti fyrir tugi milljóna dollara frá Rússum eftir að eldri flaugar þeirra voru teknar úr umferð.
Samkvæmt núverandi skipulagi er eitt sæti í hverju Soyuz-fari ætlað bandarískum geimfara og eitt í hverju Dragon geimfari fyrir rússneskan, til að tryggja að í neyðartilfellum sé bæði bandarískur og rússneskur geimfari til staðar.
Starliner Boeing dugar ekki enn
Geimfar Boeing, Starliner, sem átti að verða annar valkostur, hefur einungis flogið með áhöfn einu sinni, og það ferðalag endaði illa.
Geimfararnir þurftu að snúa aftur til jarðar með SpaceX vegna bilunar sem kom upp og var það einmitt Space-X sem stóð að ótrúlegri björgun þeirra.
Enn er óljóst hvenær Starliner verður tilbúinn til reglulegra mannaðra ferða.
NASA orðið háð SpaceX
SpaceX hefur gegnt lykilhlutverki í margvíslegum verkefnum NASA, þar með talið að koma fólki til og frá geimstöðinni, skila vistum til geimstöðvarinnar og í framtíðinni, koma mönnum aftur til tunglsins með Starship farinu.
Að sögn sérfræðinga væri það mikið áfall fyrir bandaríska geimiðnaðinn í heild sinni ef Dragon geimförin yrðu tekin úr umferð.
Óvíst er hversu alvarleg hótun Musk raunverulega er, en margir túlka hana sem svar við pólitískum þrýstingi forsetans.
Óháð því hvort honum er alvara með hótuninni eða ekki, þá sýndi þessa eina hótun hversu mikilvæg aðkoma SpaceX er orðin fyrir bandaríska geimferðaáætlunina.