Ferðamenn áttu fótum fjör að launa þegar Etna gaus með miklum krafti – Myndband

Eldfjallið Etna á Sikiley á Ítalíu gaus með látum á mánudag og sendi frá sér glóandi ösku og hraun í svonefndu eldskýi, að því er fram kemur í tilkynningu frá jarðvísindastofnun Ítalíu (INGV).

Hraunið streymdi niður hlíðar fjallsins og sáust þess merki á innrauðum myndum sem stofnunin birti.

Auglýsing

Í myndbandi sem birt var á Facebooksíðu INGV má sjá risavaxið öskuský rísa hátt upp í heiðbláan himin yfir fjallinu.

Talsmenn INGV greindu frá því að eldsumbrotin hófust í kjölfar þess að hluti suðaustur gígsins féll saman og leysti þannig úr læðingi hraunflæði.

Aðeins svæðið við topp fjallsins, sem lokað var fyrir ferðamönnum á mánudag, var talið í hættu.

Í einu myndbandi á samfélagsmiðlum mátti sjá ferðamenn hlaupa niður gönguleið við fjallið með reyk og ösku í bakgrunni, en engar fréttir eru um slys á fólki.

Samkvæmt fréttum AP segir Stefano Branca hjá INGV að engin hætta steðji að íbúum í nágrenninu.

Etna er virkasta eldkeila Evrópu og hefur gosið árlega undanfarin ár, oft með miklum öskufalli í nálægum bæjum, þó án þess að valda meiriháttar tjóni.

Í fyrra vakti Etna athygli fyrir að senda frá sér hringlaga öskuský í óvenjulegu sjónarspili.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing