Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú fleiri en eitt mál sem varða meinta hópnauðgun. Þetta staðfestir Bylgja Hrönn Baldursdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild.
„Ég get ekki sagt hvað þau eru mörg sökum rannsóknarhagsmuna, en ég get sagt að það er fleira en eitt [hópnauðgunarmál] til rannsóknar,“ segir Bylgja Hrönn.
Einn einstaklingur er í farbanni vegna meintrar hópnauðgunar sem átti sér stað í Reykjavík fyrir rúmum tveimur vikum.
Þrír voru handteknir í tengslum við málið og sættu þeir gæsluvarðhaldi í fimm daga. Rannsókn málsins miðar að sögn Bylgju ágætlega.