Foreldri á Múlaborg gagnrýnir borgaryfirvöld: „Enginn virðist geta tekið ábyrgð á neinu“

Elva Björk Haraldsdóttir, foreldri barns á leikskólanum Múlaborg, gagnrýnir verklag, upplýsingaflæði og ábyrgðarleysi borgaryfirvalda í kjölfar rannsóknar lögreglu á meintum kynferðisbrotum starfsmanns leikskólans.

Í viðtali á Bylgjunni lýsir hún óvissu og áfalli meðal foreldra þegar fréttir bárust fyrst í gegnum fjölmiðla en ekki frá leikskólanum.

Lýsir áfalli á leikskólanum

Auglýsing

Elva segir að þegar hún hafi komið í leikskólann skömmu eftir að fréttir birtust hafi starfsfólk verið í sárum en lítið mátt tjá sig.

„Starfsfólkið vissi ekki neitt eða mátti ekki segja neitt. Sumir voru sjálfir foreldrar en fengu samt engar upplýsingar. Börnin skynjuðu sem betur fer lítið, en aðstæðurnar voru furðulegar og allir í lausu lofti,“ segir hún.

Óvissa um umfang málsins

Að hennar sögn fengu foreldrar lengi litlar upplýsingar.

„Okkur var sagt að ekki mætti segja neitt. Lögreglan væri með málið. Ekkert var gripið strax eins og áfallahjálp fyrir starfsfólk eða leiðbeiningar til okkar foreldra. Nú liggur fyrir að málið gæti tengst allt að tíu börnum, jafnvel fleiri eða færri,“ segir Elva og undirstrikar að barn sitt geti ekki tjáð sig skýrt en að hún hafi orðið vör við hegðunarbreytingar.

Elva segir brýnt að bæta viðbragð við slíkum atvikum.

„Þegar eitthvað svona gerist þarf að grípa starfsfólk og foreldra strax. Fagaðilar eiga að mæta, útskýra hvernig við tölum við börnin án þess að leiða þau eða rugla, og veita skýrar leiðbeiningar. Það þarf skýrt verklag og einhvern sem tekur ábyrgð,“ segir hún.

Vinnuumhverfi og mönnun nefnd sem áhættuþættir

Hún bendir á langvarandi vanda í leikskólamálum.

„Mönnun og álag hafa verið erfið lengi. Ef tveir sjá um 20 börn er ógerlegt að fylgjast með öllum. Í slíku ástandi geta myndast glufur sem einstaklingar misnota,“ segir Elva.

Gagnrýni á borgaryfirvöld

Elva gagnrýnir sérstaklega viðbrögð Reykjavíkurborgar.

„Það virtist sem markmiðið væri að draga úr alvarleika málsins og þagga það niður. Ef fjölmiðlar hefðu ekki fjallað um þetta, efast ég um að við foreldrar hefðum fengið neinar upplýsingar.“

Í færslu á Facebook sagði Elva meðal annars:
„Ég er orðlaus á verklagi, upplýsingaflæði, að gert sé lítið úr brotum á okkar yngsta hóp samfélagsins. Enginn virðist geta tekið ábyrgð á neinu.“

 

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing