Forsvarsmenn tjaldsvæðisins á Selfossi svara gagnrýni á störf sín og fengu sterk viðbrögð

Tjaldsvæðið á Selfossi hefur undanfarið verið mikið í umræðunni Facebook hópnum Tjaldsvæði – umræðuvettvangur, eftir að gestir lýstu bæði ánægju og óánægju með aðstöðu, verðlag og þjónustu á svæðinu.

Í kjölfar umfjöllunar og gagnrýni birtu rekstraraðilar tjaldsvæðisins, þau Guðjón Pétursson og Sif Þormóðsdóttir, einlæga og yfirvegaða yfirlýsingu þar sem þau fara yfir stöðu mála og bregðast við athugasemdum.

Auglýsing

„Við viljum byrja á að þakka ykkur fyrir hreinskilin viðbrögð og ábendingar. Þótt það sé erfitt að lesa svona gagnrýni, þá á hún rétt á sér og við viljum gera betur,“ segir Guðjón og útskýrir að þau hafi tekið við rekstrinum 1. janúar síðastliðinn.

Hann viðurkennir að margt hafi komið þeim á óvart, bæði hvað varðar viðhald og umfang þjónustuþarfa.

Rafmagnstruflanir, ófullnægjandi salernisþrif og verðlag í brennidepli

Gagnrýni gesta hefur m.a. beinst að rafmagnsleysi um helgar, lausum klósettsetum, þrifum og háu verði.

Guðjón segir að þegar hafi verið haft samband við rafvirkja, að hert hafi verið á daglegri þrifaráætlun og að viðhald sé í fullum gangi.

Þá bendi hann á að verðskráin endurspegli aukinn rekstrarkostnað, en að afslættir séu í boði fyrir eldri borgara, öryrkja og fjölskyldur sem dvelja lengur en þrjár nætur.

„Við getum ekki snúið því við sem þegar hefur farið úrskeiðis og þykir þetta mjög miður. En við höfum hafið endurskoðun á þjónustunni og aðstöðunni. Við leggjum mikið upp úr því að bæta þjónustuna og þiggjum allar ábendingar, bæði neikvæðar og jákvæðar.“

Lærdómsrík helgi og bjartari sumarhorfur

Guðjón lýsir síðustu helgi sem þeirri stærstu í rekstrinum hingað til og segir hana hafa verið virkilega lærdómsríka: „Það er mannlegt að gera mistök, en gáfulegt að læra af þeim og það ætlum við að gera.“

Í lokin undirstrikar hann að þau séu staðráðin í að vinna sér inn traust með raunverulegum umbótum: „Við gerum okkur grein fyrir að trausti þarf að vinna fyrir, og það gerum við með verkum, ekki orðum.“

Gestir bregðast við með hrósi og uppbyggilegum athugasemdum

Viðbrögð við færslunni létu ekki á sér standa. Fjöldi fólks hrósaði þeim hjónum fyrir fagmennsku, auðmýkt og einlæga viðurkenningu á vanda:

„Mikið afskaplega er ánægjulegt að sjá svona fagleg og metnaðarfull viðbrögð við gagnrýni. Vel gert! Hlakka til að kíkja til ykkar í sumar.“ – Auður Hermannsdóttir

„Hef gist nokkrum sinnum á tjaldstæðinu ykkar og verið mjög sáttur. Svona á að svara gagnrýni, ergó rýna til gagns.“ – Höskuldur Birkir Erlingsson

„Bara þetta viðmót lætur mig langa að kíkja á tjaldsvæðið hjá ykkur, klárt mál í sumar.“ – Sigurður Valdimar Steinthorsson

Fleiri tóku í sama streng og sögðu svar Guðjóns og Sifjar bæði manneskjulegt og hvetjandi. Sumir gerðu þó athugasemdir við verðið:

„3100 krónur nóttin per haus – er það ekki ansi mikið?“ – Linda Hrönn Benediktsdóttir

„Það er í raun alveg sama hvað þú gerir – það verður alltaf fólk hérna á síðunni sem tímir ekki að borga fyrir þjónustuna og kvartar yfir öllu og engu (þó svo að það ferðist með áfengi sem kostar mun meir en tjaldsvæðið).“ – Magnús Kristjánsson

Aðrir veittu praktískar ábendingar:

„Algengasta ástæðan fyrir því að rafmagnið er að slá út er sú að fólk er að raðtengja og við það verður álagið meira en kerfið annar.“ – Ásta Halla Ólafsdóttir, rekstraraðili tjaldsvæðis

„Held að þið verðið að fara oftar yfir WC þegar mikið er af fólki því þetta er það fyrsta sem fólk tekur eftir. Við vorum samt ánægð með dvölina og munum alveg örugglega koma aftur.“ – Ásta Guðný Ragnarsdóttir

Einnig komu fram hugmyndir um að koma til móts við þá gesti sem lentu í rafmagnsvandræðum um síðustu helgi:

„Gæti verið sterkur leikur að gefa þeim sem eiga kvittun frá síðustu helgi góðan afslátt næst þegar þau mæta.“ – Ingólfur Þorleifsson

 

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing