Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, flutti harðorða ræðu á Alþingi þar sem hann gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að forgangsraða fjármunum ríkisins í verkefni erlendis í stað þess að leysa brýn vandamál innanlands.
„Stýrivextir hreyfast ekki, verðbólgan hreyfist ekki. Eitt hreyfist þó upp á við, og það eru skattar almennings,“ sagði Snorri í upphafi ræðu sinnar.
Hann spurði í kjölfarið hvert skattfé almennings færi og vísaði til þess að tugi milljarða króna væru varið í útlendingamál og ýmis „gæluverkefni íslenskra stjórnvalda víðs vegar um heiminn.“
Tók dæmi um framlög til erlendra verkefna
Snorri nefndi sérstaklega nýleg framlög utanríkisráðuneytisins sem dæmi um ranga forgangsröðun: „Maður þarf varla að opna vef ráðuneytisins til að sjá tilkynningar á nokkurra daga fresti um tugi milljóna króna í framlög til verkefna erlendis, til dæmis 60 milljónir í rampaverkefni í Úkraínu og 150 milljónir til alþjóðlegra hinsegin samtaka í Bandaríkjunum.“
Hann sagði að á meðan færu þessar fjárhæðir ekki í að styrkja grunnþjónustu innanlands.
„Peningurinn fer ekki í að hjálpa ungmennum sem eru í andlegum vanda hér heima, ekki í að efla skólakerfið, ekki í hjúkrunarheimili fyrir fólk sem hefur greitt skatta alla ævi,“ sagði Snorri.
„Fyrir hvern er ríkisstjórnin að vinna?“
Í ræðu sinni spurði Snorri hvort ríkisstjórnin ynni fyrir íslenskan almenning eða fyrir „fína fólkið á erlendum ráðstefnum.“
Hann sagði að stjórnmálamenn hefðu gleymt hverjum þeir ættu að þjóna.
„Íslenskur almenningur greiðir ekki skatta til þess að stjórnmálastéttin geti lifað í sjálfsblekkingu um að hún sé að bjarga heiminum. Þvert á móti ætti hún að átta sig á því að Íslendingar verða að byrja á að bjarga sjálfum sér,“ sagði hann að lokum.