Gagnrýnir bið eftir þjónustu barna – „Skert velferð er ekki stefna“

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir harðlega stöðu barna á biðlistum hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð og talmeinafræðingum.

Í færslu á Facebook segir hún að 717 börn séu á biðlista og 674 þeirra hafi beðið lengur en þrjá mánuði.

Auglýsing

Í sumum tilvikum sé biðin orðin allt að 38 mánuðir.

„Þetta er óásættanleg staða,“ skrifar Guðrún og bendir jafnframt á að á sama tíma eigi að lækka framlög til Ljóssins um 200 milljónir króna.

Hún segir að Ljósið veiti um 600 einstaklingum á mánuði stuðning, bæði fólki með krabbamein og aðstandendum þeirra, og spari ríkinu verulegar fjárhæðir.

Segir ríkisstjórnina ekki geta vísað ábyrgð frá sér

Guðrún segir að ríkisstjórnin hafi nú setið í tíu mánuði og geti ekki lengur bent á fyrri stjórnir.

„Pólitískar ákvarðanir hennar eru pólitískar ákvarðanir hennar,“ segir hún og gagnrýnir heilbrigðisráðherra fyrir að hafna fundum með einstaklingum sem óska eftir samtali.

Hún nefnir í færslunni að Samfylkingin, sem fer með heilbrigðisráðuneytið, hafi kosið slagorðið „Sterk velferð, stolt þjóð“, en að í raun hafi orðið niðurstaðan „Skert velferð, stolt þjóð“.

„Skert velferð er ekki stefna. Hún er afleiðing. Tími er kominn til að breyta því,“ skrifar Guðrún.

Styður mæður barna á biðlistum

Guðrún lýsir yfir stuðningi við mæður barna með sérþarfir sem hafa opnað vefsíðuna bidlisti.is og kalla eftir tafarlausum aðgerðum.

Síðan er bæði vettvangur fyrir undirskriftasöfnun og frásagnir foreldra sem vilja lýsa reynslu sinni af biðlistakerfinu.

Guðrún vísar einnig í umfjöllun Morgunblaðsins, þar sem fjórar mæður, Vigdís Gunnarsdóttir, Þuríður Sverrisdóttir, Júnía Kristín Sigurðardóttir og Stefanía Hulda Marteinsdóttir, lýsa baráttu sinni við að fá þjónustu fyrir börn sín.

Vigdís segir að sonur hennar hafi þurft að bíða í tvö og hálft ár eftir tíma hjá talmeinafræðingi, en að aðrir hafi komist að innan tveggja vikna.

Hún kallar það mismunun og segir að kerfið virki ekki eins fyrir alla.

„Við erum bara fjórar mæður sem vilja reyna að gera eitthvað,“ sagði Vigdís í samtali við Morgunblaðið, en hún og hinar mæður hófu undirskriftasöfnunina í kjölfar fyrirspurnar Guðrúnar Hafsteinsdóttur á Alþingi.

Guðrún segir að þessar mæður hafi rétt fyrir sér og að stjórnvöld verði að bregðast við án tafar.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing