George Foreman er nafn sem flestir tengja við hnefaleika, en hann er einnig þekktur sem farsæll viðskiptamaður og prédikari. Hann fæddist 10. janúar 1949 í Marshall, Texas og ólst upp við erfiðar aðstæður í Houston. Hann lést 21. mars síðastliðinn.
Uppreisnargjarn unglingur fór í hnefaleika
George var uppreisnargjarn unglingur en fann loks tilgang í hnefaleikum, sem breytti lífi hans og gerði hann að einum af mestu hnefaleikamönnum sögunnar. Hann hóf feril sinn á árunum þegar Muhammad Ali, Joe Frazier og Ken Norton voru meðal fremstu bardagamanna heims. Árið 1968 vann hann gullverðlaun í þungavigt á Ólympíuleikunum í Mexíkóborg, sem var fyrsta stóra afrek hans í íþróttinni.
Georg varð atvinnumaður ári síðar og klifraði hratt upp metorðastigann. Hann var ótrúlega sterkur og árásargjarn hnefaleikamaður sem sló andstæðinga sína oft út snemma í bardögum. EItt eftirminnilegasta augnablikið í ferli hans átti sér stað 22. janúar 1973, þegar hann mætti Joe Frazier í titilbardaga um heimsmeistaratitilinn í þungavigt. George rústaði Frazier með því að kýla hann niður sex sinnum í tveimur lotum og varð heimsmeistari.
George var ósigrandi þar til hann mætti Muhammad Ali í hinum fræga „Rumble in the Jungle“ bardaga í Zaire, (nú Lýðveldið Kongó) árið 1974. Ali notaði hina klóku „rope-a-dope“ aðferð og þreytti George og rotaði hann í áttundu lotu. Eftir það hélt George áfram í nokkur ár, en eftir tap árið 1977 ákvað hann að hætta hnefaleikum.
Endurkoma í hnefaleika
Eftir að hafa orðið prédikari og stofnað góðgerðasamtök kom George óvænt aftur í hnefaleikana árið 1987, þá 38 ára gamall. Margir töldu hann of gamlan og hægan, en hann vann sig aftur upp metorðastigann. Árið 1994, þá 45 ára gamall, vann hann ótrúlegan sigur gegn Michael Moorer og varð elsti heimsmeistari í þungavigt hnefaleika. Þetta gerði hann að ákveðinni goðsögn í íþróttinni. Hann barðist nokkrum sinnum í viðbót en lagði hanskana endanlega á hilluna árið 1997.
George Foreman grillið og George-arnir fimm
Eftir hnefaleikaferilinn gerðist Foreman afar farsæll viðskiptamaður. Hann varð andlit George Foreman Grill, eldhústækis sem seldist í yfir 100 milljónum eintaka um heim allan. Með velgengni grillsins þénaði hann hundruð milljóna dollara og tryggði sér enn meiri frægð en hann hafði sem hnefaleikamaður. Setningin „I´m so proud of it, I put my name on it“ festi sig í hugum fólks og er enn í dag talað um George Foreman grillið.
Það var þó ekki bara grillið sem fékk nafn George, en hann átti 5 syni sem fengu allir að heita eftir pabba sínum:
George Foreman Jr ,
George „Monk“ Foreman III,
George „Big Wheel“ Foreman IV,
George „Red“ Foreman V og
George „Little Joey“ Foreman VI
George átti líka dæturnar Michi, Georgetta, Freeda, Leola og Natalie.
George var oft verið spurður út í þessar óvenjulegu ákvörðun að skíra synina alla eftir sjálfum sér og svaraði hann því þannig: „Mig langaði svo að þeir ættu eitthvað sameiginlegt… ég sagði þeim að ef einn okkar fer upp, förum við allir upp. Ef einn lendir í veseni, lendum við allir í veseni,“ sagði George í viðtali hjá „In Depth with Graham Besinger“ árið 2021.
George Foreman var ekki aðeins táknmynd styrks og seiglu í hnefaleikum heldur einnig fyrirmynd fyrir þá sem vilja enduruppgötva sig og ná árangri. Hann hafði gríðarleg áhrif á hnefaleikaheiminn og sýndi að aldur þarf ekki að vera hindrun ef maður hefur rétta hugarfarið.