Í nýlegum þætti af Bylgjunni í Bítið, þar sem umræðuefnið var „vók“, tóku þau Arna Magnea Danks, leikari og aktivisti, og Þórarinn Hjartarson, hlaðvarpsstjórnandi, þátt í líflegri umræðu um merkingu og áhrif þessa umdeilda hugtaks.
Heimir Karlsson stýrði umræðunni ásamt Lilju Katrínu
„Öfga-vók“ frá unga aldri
Arna Magnea lýsti sér sem öfga-vók og sagðist hafa barist fyrir mannréttindum allt sitt líf. Arna rifjaði upp þátttöku sína í mótmælum gegn apartheid í Suður-Afríku og stuðning við Bosníustríðið.
„Mér er annt um réttlæti og ég tel að vók þýði að vera vakandi fyrir óréttlæti, að hafa samkennd og samhug, og vilja bæta heiminn, ekki bara fyrir sig heldur alla,“ sagði Arna.
Gagnrýnir vók sem óbilgirni
Þórarinn hafði aðra sýn.
Hann sagði að „vókhyggjan“ fæli í sér óbilgirni gagnvart öðrum skoðunum og að samfélagsákvarðanir væru oft teknar með því að hlusta á þá sem móðgast mest.
„Fólk hefur misst trú á þessum fræðum og greinarnar eru farnar að missa fjármagn vegna vaxandi gagnrýni“
„Það hefur skapast ákveðinn Jesús-komplex þar sem fólk sér sig sem bjargvætt heimsins, án þess að raunverulega leggja neitt til samfélagsins,“ sagði hann.
Hann nefndi einnig að þessi þróun hefði átt sér upphaf í bandarískum háskólum og væri nú farin að smitast yfir í önnur fræðasvið, þar með talið íslenskt háskólasamfélag.
„Fólk hefur misst trú á þessum fræðum og greinarnar eru farnar að missa fjármagn vegna vaxandi gagnrýni,“ bætti hann við.
Kynjafræði og eitruð karlmennska
Arna vék einnig að gagnrýni á kynjafræði og útskýrði að fræðigreinin hafi þróast úr femínískum bylgjum með það að markmiði að greina kerfisbundinn mismun.
Arna lagði áherslu á að „eitruð karlmennska“ væri ekki gagnrýni á karlmenn sem einstaklinga heldur á skaðlegar hugmyndir sem réttlæta kúgun og ofbeldi.
„Ég á þrjá syni sem ég elska. Þetta snýst ekki um að drulla yfir karla heldur að rífa niður skaðlegt kerfi,“ sagði Arna.
Covid, samfélagsmiðlar og „cancel kúltúr“
Þórarinn benti á að „vókhyggja“ hefði haft áhrif á ákvarðanatöku, m.a. í tengslum við COVID-19, þar sem hann taldi samfélagsmiðla hafa haft áhrif á hörku aðgerða.
Hann sagði jafnframt að „cancel culture“ væri á undanhaldi, sem væri jákvætt, og að fólk væri farið að sjá í gegnum hugmyndakerfi sem byggðu meira á tilfinningum en vísindum.
„Við þurfum að vona — ekki gefast upp“
Í lok þáttarins sagði Arna að það væri erfitt að sýna virðingu þegar maður fengi líflátshótanir og væri afmennskaður á samfélagsmiðlum.
Arna ítrekaði þó að umræðan snúist ekki um karla á móti konum heldur um að bæta heiminn fyrir alla.
Þetta er eingöngu brot úr umræðunni sem fram fór í þættinu en hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í hér.