Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins, birti nýlega pistil á samfélagsmiðlum sem hefur vakið mikla athygli.
Í færslunni, sem er skrifuð á gamansaman hátt, ímyndar hann sér hvernig undirbúningur Donald Trump fyrir fund með íslenskum ráðamönnum gæti hafa litið út, með hjálp bandarísku leyniþjónustunnar.
Samkvæmt frásögn Arnars fær forsetinn upplýsingar frá CIA um að tveir fulltrúar frá Íslandi muni mæta á fundinn, báðar konur (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Kristrún Frostadóttir).
Leyniþjónustumaðurinn tilkynni honum svo að Ísland sé nú í „samfélagstilraun“ þar sem konur gegni öllum völdum, „Amazon-konurnar voru aldrei til nema í grískri goðafræði“, segir í textanum.
Vilja framselja íslenskt fullveldi
Í hinu ímyndaða samtali spyr Trump m.a. hvort þessar konur tali mikið um fullveldi.
CIA fulltrúinn svarar því játandi, en aðeins þegar kemur að Úkraínu.
„Fullveldi Íslands er annað mál,“ segir hann, og bætir við að helsta áhersla þeirra sé að framselja íslenskt fullveldi til Evrópusambandsins.
Báðar séu þær gagnrýnar á Bandaríkin og sérstaklega Trump sjálfan og hafi líkt honum við Pútín og Erdogan.
„Ekki skilin út frá rökrænum forsendum”
„Afstaða íslenskra stjórnvalda undir þessari kvennastjórn, verður ekki skilin út frá rökrænum forsendum,“ segir „leyniþjónustumaðurinn“ í frásögn Arnars.
Hún byggi frekar á „kreddu og þráhyggju“ sem aðeins verði leiðrétt með „hreinni valdapólitík“.
Arnar Þór endar pistilinn á því að láta CIA-manninn spá fyrir um að ef Trump sýni styrk á fundinum muni íslensku fulltrúarnir vilja „brosa til hans, vera með á mynd“ og jafnvel „leiðrétta kúrsinn“.
Hann bætir svo við þar sem hann heldur því fram að utanríkisráðherra Íslands hafi í fyrsta sinn á sínum ferli látið hafa eftir sér jákvæð orð um Trump:
„Hann er nú heillandi, karlinn.“