Snorri Másson, varaformaður Miðflokksins og þingmaður, skrifaði færslu á samfélagsmiðla þar sem hann varar við því sem hann kallar yfirvofandi hrun vestrænnar siðmenningar.
Hann segir að Ísland sé engan veginn undanskilið þeirri þróun og að Íslendingar standi frammi fyrir bæði menningarlegri og lýðræðislegri ógn.
„Innflytjendum fjölgar margfalt hraðar en innfæddum“
Í færslu sinni segir Snorri að fæðingartíðni á Vesturlöndum hafi hrunið og að innflytjendum fjölgi margfalt hraðar en heimamönnum.
Hann bendir á að ef ekkert breytist muni Íslendingar sjálfir verða í minnihluta innan nokkurra áratuga.
„Einstakur arfur kynslóðanna og söguleg samfella í þúsund ár eru í húfi,“ skrifar Snorri og varar við því að „galdrinum í íslensku samfélagi“ sé stefnt í voða, þar á meðal samfélagslegu trausti, samheldni og sameiginlegum skilningi á lífinu í landinu.
Þjóðin eins og fyrirtæki
Snorri líkir þjóðinni við fyrirtæki og segir að íslensk menning sé ein verðmætasta eign þjóðarbúsins, þótt erfitt sé að bókfæra hana.
„Við flytjum inn starfsmenn í láglaunastörf í sögulegum straumi og vörpum svo öndinni léttar að hér mælist lágmarkshagvöxtur, en spyrjum okkur ekki hvað þessir ársreikningar þýða til lengri framtíðar,“ skrifar hann.
Að hans mati sé hætt við að þjóðin „afskrif(i) menningu sína úr bókhaldi hagkerfisins“ og að það geti orðið óbætanlegt tjón.
Gagnrýnir það sem hann kallar ramma leyfilegrar umræðu
Snorri gagnrýnir það sem hann kallar þröngan ramma leyfilegrar umræðu um innflytjendamál og tungumálastefnu.
Hann nefnir sérstaklega tónlistarmanninn Bubba Morthens og málfræðiprófessorinn Eirík Rögnvaldsson, sem hann segir bundna fjötrum frjálslynds vinstri vængs.
Að hans mati sé ekki nóg að ræða íslenskukennslu fyrir útlendinga án þess að ræða afleiðingar fólksflutninga:
„Mér þykir vafasamt að ætla að deyja á þeirri hæð, að vandræðalaust sé að skipta þjóðinni út, svo fremi sem haldin verði fleiri kvöldnámskeið í sagnbeygingum einhvers staðar uppi á Höfða.“
„Nauðhyggja glóbalismans er allsráðandi“
Í færslunni gagnrýnir Snorri harðlega alþjóðlega markaðshyggju og segir að hún hafi leitt til þess að vinstrimenn tali nú eins og iðnrekendur:
„Eina leiðin fram á við sé sífellt meira innflutt vinnuafl,“ skrifar hann og bendir á að Ísland hafi verið rekið án slíks í rúm 1100 ár.
Hann segir að þjóðin standi nú frammi fyrir fólksfækkun og spyr hvernig næstu kynslóðir muni líta á viðbrögð samtímans við þeim vanda:
„Von mín er sú að svarið verði ekki í anda læknisins forðum: Aðgerðin heppnaðist, en sjúklingurinn er látinn.“
Tengir fólksflutninga við lægri fæðingartíðni
Snorri vísar til greinar stjórnmálafræðingsins Darel E. Paul í Compact Magazine og segir að samband sé milli aukins innflytjendastraums og hruns fæðingartíðni, bæði hér á landi og í öðrum ríkjum.
„Hin meinta lausn við mannfæðarvanda okkar virðist í raun gera vandann verri,“ segir hann og bendir á að áhrifin sjáist meðal annars í húsnæðiskreppu og álagi á leikskólakerfi.