Endurupptaka kynferðisbrotamálsins gegn Harvey Weinstein virðist vera í uppnámi þar sem kviðdómur virðist djúpt klofinn í áliti sínu og hefur átt í erfiðleikum með að ná niðurstöðu, nú á þriðja degi umræðna.
Kviðdómarar sneru aftur fyrir rétt á mánudag og óskuðu eftir að fá skýringar á hugtakinu „yfir allan vafa“ og reglum um hvernig forðast megi ósamhljóða niðurstöðu.
Þá sendi kviðdómsformaður tilkynningu til dómarans Curtis Farber þar sem hann óskaði eftir fundi vegna „óviðunandi aðstæðna“ sem hefðu komið upp í kviðdómsherberginu.
Dómarinn svaraði kallinu með því að ræða við formanninn bakvið luktar dyr ásamt saksóknurum og verjendum.
Weinstein, sem er 73 ára, afsalaði sér rétti til að vera viðstaddur samtalið.
Ekki hefur verið gefið upp hvað kom fram á fundinum.
Gæti orðið til þess að Weinstein sleppi frá málinu
Málið snýst um tvö ákæruatriði fyrir refsiverða háttsemi og eitt fyrir nauðgun. Weinstein segist saklaus af öllum ákærum.
Á föstudag óskaði einn kviðdómari eftir því að vera leystur frá störfum og sagði að aðrir kviðdómarar hefðu komið illa fram við einn í hópnum.
Dómarinn synjaði beiðninni og hafnaði einnig kröfu verjenda um að málið yrði ógilt.
Upphaflega var Weinstein dæmdur í New York árið 2020 fyrir nauðgun og kynferðislega áreitni gegn tveimur konum, dómur sem var talinn tímamót í #MeToo-byltingunni.
Sá dómur var síðar felldur úr gildi, og nú stendur yfir endurupptaka með nýjum kviðdómi og viðbótarvitni.
Weinstein var einnig sakfelldur í Los Angeles árið 2022 fyrir aðra nauðgun.