Auglýsing

Landlæknir segir það alls ekki góða hugmynd að sýna þættina Adolescence í skólum

Landlæknir María Heimisdóttir hefur sent frá sér skýra aðvörun til skólastjórnenda víðs vegar um landið vegna umræðu um að sýna Netflix-þáttaraðirnar Adolescence í grunnskólum landsins eins og stendur til að gera í Bretlandi.

Í bréfi sem sent var til tengiliða og skólastjóra í Heilsueflandi grunnskólum kemur fram að embættið telur slíka sýningu ekki þjóna forvörnum – heldur þvert á móti geta valdið skaða.

Fréttin birtist fyrst á Vísi þar sem Jakob Bjarnar greindi frá.

Vaxandi umræða um ofbeldi barna og leit að forvarnaleiðum

Í bréfi frá embætti landlæknis, undirrituðu af Ingibjörgu Guðmundsdóttur (verkefnastjóra Heilsueflandi skóla), Sigrúnu Daníelsdóttur (verkefnisstjóra geðræktar) og Jenný Ingudóttur, er harðlega varað við að fara þessa leið.

Bréfið er sérstaklega ætlað kennurum og skólastjórnendum og er hvatt til að því verði deilt innan skólanna.

Varanleg áhrif en ekki tímabundið sjokk

Landlæknir leggur áherslu á að forvarnir verði að byggjast á traustum grunni og gagnreyndum aðferðum en ekki á dramatísku eða sjokkerandi sjónvarpsefni sem ætlað er að hafa tilfinningaleg áhrif.

Í bréfinu segir m.a.:
„Ekki er um gagnreynda nálgun að ræða og engar kennsluleiðbeiningar fylgja með sýningu slíks efnis. Kennarar eru oft ekki í stakk búnir né hafa þau bjargráð sem þeir þurfa til að takast á við viðbrögð sem geta komið hjá nemendum.“

Einnig kemur fram að slíkar aðgerðir geti haft öfug áhrif við það sem þeim er ætlað að áorka.

Áhyggjur af þróun erlendis

Í bréfinu er vísað til þess að í Bretlandi hafi sumir skólar tekið ákvörðun um að sýna þættina Adolescence í nafni forvarna.

Samtök á sviði ofbeldisforvarna þar í landi hafa þó sjálf varað við slíkri nálgun og sagt hana geta verið skaðlega.

Embætti landlæknis ítrekar þá afstöðu og segir að aðferðir sem byggja á ótta, skömm og sjokki hafi ítrekað reynst gagnslausar, og jafnvel skaðlegar.

„Slíkar sýningar geta endurvakið áfallaviðbrögð eða kallað fram truflun í skólastofunni þar sem nemendur t.d. grípa til varnarviðbragða með því að hlæja, gera lítið úr eða hunsa það sem á sér stað á skjánum.“

Kallað eftir faglegum, langtímamiðuðum lausnum

Embættið hvetur skólastjórnendur eindregið til að horfa í átt að langtíma, faglegum lausnum sem byggja á rannsóknum og áfallamiðaðri nálgun.

Slíkar aðgerðir krefjist skipulagningar, sérfræðikunnáttu og samvinnu milli skóla, heimila og heilbrigðisþjónustu, ekki einhliða sýninga á sjónvarpsefni sem getur reynst börnum ofviða.

„Forvarnir er ekki hægt að vinna með inngripi í eitt skipti. Fjárfesta þarf í vel rannsökuðum langtímaaðgerðum sem tryggja bæði réttindi og öryggi barna,“ segir í bréfinu.

Að endingu er bent á að fyrr í vetur hafi embættið einnig sent bréf til stjórnenda skóla og félagsmiðstöðva með hvatningu um að kynna sér staðreyndir og aðferðir áður en gripið sé til forvarnaátaka.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing