Ekki eru allar fréttir neikvæðar en leikarinn Elijah Wood, þekktur fyrir hlutverk sitt sem hobbitinn Frodo Baggins í Lord of the Rings (Hringadróttinssögu) kvikmyndunum, mætti óvænt í brúðkaup ungs pars í Hobbitabænum fræga í Nýja-Sjálandi, gestum til mikillar gleði.
Óvæntur gestur
Brúðhjónin Sharik og Jessica Burgess-Stride frá Rotorua voru að ljúka athöfninni, sem var með hobbitaþema í anda staðarins, þegar leikarinn birtist skyndilega.
„Ég trúði varla eigin augumu,“ sagði Sharik við Waikato Herald. „Fyrst hugsaði ég: nei, það getur ekki verið hann og svo bara, ó nei, þetta er hann!“
Wood tók í hendur brúðhjónanna, óskaði þeim til hamingju og tók með þeim nokkrar myndir áður en hann gekk aftur til hópsins sem hann var að heimsækja ferðamannastaðinn með.
Regn og heppni
Brúðguminn sagði daginn hafa verið fullkominn og bætti við að hann hefði litið á rigninguna sem merki um heppni, sem sannaðist eftir komu Wood.
Parið, sem er frá Ástralíu, kynntist við háskólann í Newcastle og hafði verið saman í sjö ár áður en þau gengu í hjónaband.
Frodo í hjónavígslunni
Sharik sagðist hafa verið mikill aðdáandi Lord of the Rings og The Hobbit frá barnæsku og að bæði athöfnin og heitin þeirra hefðu innihaldið vísanir í kvikmyndirnar.
Samkvæmt Waikato Herald voru Elijah Wood og fleiri leikarar úr Lord of the Rings staddir í Nýja-Sjálandi vegna Armageddon Expo hátíðarinnar í Auckland.
Ljósmyndarinn Cath Ullyett, sem tók myndir í brúðkaupinu, hvatti Wood til að taka þátt þegar hann staðnædmist til að fylgjast með brúðkaupinu.
„Ég hljóp til hans og spurði hvort hann vildi taka nokkrar myndir með brúðhjónunum,“ skrifaði hún á samfélagsmiðla.
„Eins kurteis og hann er, vildi hann ekki trufla en með smá hvatningu var hægt að sannfæra hann við mikil fagnaðarlæti viðstaddra.“
„Takk Elijah fyrir að gera þennan dag enn eftirminnilegri,“ bætti hún við. „Við elskuðum það öll.“