Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft hendur í hári hundruða ökumanna síðustu daga, en mikið hefur verið um hraðakstur víða um borgina.
Brotin eru mörg afar gróf og í sumum tilvikum hafa ökumenn ekið á allt að þreföldum hámarkshraða.
Á Suðurlandsvegi mældust tveir ökumenn á meira en 160 km hraða, og reyndist annar þeirra ölvaður.
Á Reynisvatnsvegi mældist bíll á 115 km hraða þar sem hámarkshraði er 50, og á Arnarbakka ók ökumaður á yfir 100 km hraða, þar sem hámarkið er aðeins 30.
Þá hafði áður verið greint frá ökumanni sem ók Reykjanesbrautina á 185 km hraða.
322 ökumenn teknir á framkvæmdasvæði – 41% brotahlutfall
Á framkvæmdasvæði við Kringlumýrarbraut milli Miklubrautar og Háaleitisbrautar hafa ökumenn einnig sýnt af sér mikið ábyrgðarleysi að sögn lögreglu.
Þar var myndavélabíll lögreglu staðsettur eftir hádegi í dag, þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. vegna nálægðar við starfsfólk og tæki.
Við vöktunina mældist meðalhraði þeirra sem gerðust brotlegir 49 km/klst. og brotahlutfallið var 41%.
Samtals eiga 322 ökumenn von á sektum.
Tólf ökumenn óku á meira en tvöföldum hámarkshraða, þar af sjö á yfir 60 og fimm á yfir 70 og eiga þeir allir yfir höfði sér sviptingu ökuréttinda.
Lögregla hvetur til varkárni
Lögregla ítrekar að ökumenn þurfi að staldra við og hugsa sinn gang. Með þessu áframhaldi sé ljóst að hættan á alvarlegum slysum fari vaxandi.
„Við verðum öll að leggja okkar af mörkum til að tryggja öryggi í umferðinni, komum heil heim.“ segir í tilkynningu lögreglu.