Alls bárust 661 tilkynningar um hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í nóvember. Um helmingur brotanna voru með skráðan vettvang á svæði lögreglustöðvar 1, sem nær yfir Miðborg, Vesturbæ, Seltjarnarnes, Háaleiti, Hlíðar og Laugardal. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir nóvember 2023.
Tilkynningum um þjófnaði fækkaði á milli mánaða sem og tilkynningum um innbrot. Flestar tilkynningar um innbrot í nóvember voru innbrot í fyrirtæki og/eða stofnanir.
108 ofbeldisbrot í mánuðinum
Alls bárust 108 tilkynningar um ofbeldisbrot í nóvember. Tilkynningar um heimilisofbeldi fjölgaði örlítið á milli mánaða og fóru úr 72 tilkynningum í október í 75 tilkynningar í nóvember. Það sem af er ári hafa borist um sex prósent færri tilkynningar um heimilisofbeldi samanborið við meðalfjölda sama tímabils síðustu þrjú ár á undan. Í nóvember voru skráð sex tilvik þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi.
Alls bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 26 tilkynningar um kynferðisbrot í nóvember, um 14 þeirra tilkynninga voru vegna brota sem áttu sér stað í nóvember.
27 beiðnir um leit að börnum
Alls bárust 27 beiðnir um leit að börnum og ungmennum í nóvember. Það sem af er ári hafa borist um 25 prósent fleiri leitarbeiðnir en bárust að meðaltali á sama tímabili sl. þrjú ár á undan.
Skráðum fíkniefnabrotum fækkaði lítillega á milli mánaða og var skráð eitt stórfellt fíkniefnabrot í nóvember. Heilt yfir hafa verið skráð um 24 prósent færri fíkniefnabrot á höfuðborgarsvæðinu en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár á undan. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna fækkaði á milli mánaða sem og tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.
Í nóvember voru skráð 642 umferðarlagabrot (að hraðamyndavélum undanskildum) á höfuðborgarsvæðinu. Það sem af er ári hafa verið skráð um sex prósent færri umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu en hafa verið skráð að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan.