Réttarhöld standa yfir í London þar sem lögregluþjónar eru ákærðir fyrir ofbeldi gegn öldruðum og hreyfihömluðum íbúa hjúkrunarheimilis í Englandi.
Lögregluþjónarnir Stephen Smith og Rachel Comotto standa nú frammi fyrir ákæru um líkamsárás eftir að hafa beitt 92 ára gamlan mann, Donald Burgess, piparúða, kylfu og rafbyssu í hjúkrunarheimili í St Leonards-on-Sea í Sussex í júní 2022.
Samkvæmt framburði saksóknara gerðu lögreglumennirnir enga tilraun til að ræða við starfsfólk heimilisins áður en þeir nálguðust Burgess, sem sat í hjólastól.
Burgess er einungis með einn fót en hann hélt á hníf með sérstöku haldfangi.
Smith úðaði piparúða beint í andlit Burgess og notaði síðan kylfu á hann.
Um það bil 12 sekúndum síðar notaði Comotto rafbyssu á manninn, sem þá veinaði af sársauka eins og heyrist á upptöku úr búkmyndavél.
Rétturinn fékk einnig að heyra að Burgess hefði verið greindur með ýmis heilsufarsvandamál, þar á meðal sykursýki og æðasjúkdóma.
Hann var einnig með þvagfærasýkingu sem gæti hafa valdið ruglingi og uppnámi.
Engin greining á heilabilun lá þó fyrir, en heimilið sérhæfði sig í umönnun slíkra sjúklinga.
Saksóknarinn lýsti aðgerðunum sem „óhóflegum“.
Hann sagði: „Þetta var viðkvæmur og gamall maður sem skildi ekki hvað var að gerast en í stað þess að mæta honum af skilningi og samúð, beittu lögreglumennirnir umsvifalaust valdi.“
Donald Burgess var fluttur á sjúkrahús eftir atvikið, þar sem hann síðar fékk COVID-19 og lést 22 dögum síðar.
Lögreglumennirnir eru þó ekki sagðir bera ábyrgð á dauða hans.
Réttarhöldin halda áfram á þriðjudag.