Meirihluti Íslendinga eða 62,1 prósent segjast hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda alþingiskosninganna 2024.
Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Fjölmiðlanefndar og Maskínu sem kannaði upplifun almennings á falsfréttum, upplýsingaóreiðu og trausti til fjölmiðla í tengslum við kosningarnar.
Facebook, TikTok og sjónvarp helst nefnd
Facebook var sá miðill sem flestir töldu hafa miðlað röngum upplýsingum, eða 65,2%, en næst á eftir kom TikTok með 31,2%.
Í þriðja sæti var sjónvarp með 24,7%, sem sýnir að upplýsingaóreiða er sannarlega ekki eingöngu bundin við samfélagsmiðla.
Traust til fjölmiðla eykst – fréttaþreyta líka
Þrátt fyrir aukna upplifun af falsfréttum jókst traust almennings til fjölmiðla. Um 52% sögðust treysta fjölmiðlum fyrir réttri og hlutlægri umfjöllun í aðdraganda kosninga, en sú tala var einungis 41% árið 2021.
Á sama tíma fundu 38,3% svarenda fyrir fréttaþreytu og 15,4% reyndu að forðast fréttir í aðdraganda kosninganna.
Flokkar, áhrifavaldar og stjórnmálamenn helst ábyrgir
Svarendur voru einnig spurðir hver bæri helst ábyrgð á röngum upplýsingum.
Ríflega helmingur taldi tiltekinn stjórnmálaflokk bera ábyrgð, 48,9% nefndu hagsmunasamtök og 46,7% stjórnmálamenn.
Þá nefndu 37,8% áhrifavalda.
Vaxandi áhugi á stjórnmálum
Þrátt fyrir upplýsingaóreiðu og fréttaþreytu sýndi skýrslan að áhugi almennings á stjórnmálum jókst.
Tæplega helmingur, eða 48,9%, sagðist hafa mikinn eða mjög mikinn áhuga á stjórnmálum, samanborið við 31,3% árið 2022.
Hægt er að sjá skýrsluna í heild sinni hér.